Geta hormón örvað stækkun brjósta?

Spurning:

Ég er 23 ára gömul og er mikið búin að hugsa um að fara í brjóstastækkun en mér finnst áhættan vera of mikil. Ég hef alltaf verið alveg flöt eins og strákur og það háir mér mikið. Ég hef mælst með of mikið af karlhormónum og því langar mig að vita hvort hægt sé að fá einhver hormón (önnur en P-pilluna) sem örva stækkun brjósta?

Með fyrirfram þökk

Svar:

Aukaverkun p-pillunnar er brjóstastækkun, en áhrifin eru mismikil milli kvenna. Stundum engin. Annað hormón sem örvar vöxt brjósta og reyndar líka mjólkurmyndun er prolaktín. Það er ekki notað til brjóstastækkunar heldur er það stundum notað til að fá fram mjólkurmyndun.

Ég ráðlegg þér að fara til innkirtlasérfræðings og athuga leiðir til að koma jafnvægi á hormónastarfsemina hjá þér, minna af karlhormónum og/eða meira af kvenhormónum. Ef það ber ekki árangur, þá er næsta skref að mínu mati sílikon eða sambærilegir brjóstapúðar.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur