Geta kynfæravörtur haft áhrif á kynlífið?

Spurning:

Sæll.

Ég komst að því nýlega að ég er með kynfæravörtur. Ég er í meðferð og nokkrar spurningar hafa skotið upp kollinum og yrði ég mjög þakklát ef að þú gætir svarað þeim.

Ég hef aldrei fengið fullnægingu og fór þá að hugsa hvort vörturnar gætu haft áhrif á það? ég er nefnilega búin að vera með þær í svolítinn tíma, ég hef samt bara sofið hjá einum strák. Við erum enn saman og hvorugt okkar varð vör við vörturnar fyrr en nýlega.

Svo er önnur spurning, geta vörturnar smitast þó að smokkur sé notaður, ef að hann rynni af eða rifnaði eða eitthvað? Tekur langan tíma að smitast af vörtunum eða þarf bara eitt skipti? Er það alveg víst að maður smitist þó að maður sofi hjá oft og mörgum sinnum einhverjum sem er smitaður?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll.

Vörturnar ættu ekki að hafa áhrif á getu þína til að fá fullnægingu. Hins vegar geta þær haft slæm áhrif á kynlífið. Til dæmis er algengt að konur finni fyrir óþægindum við samfarir, er það þá oft vegna þess að þær blotna ekki nægilega og/eða eru með sár eða ör í leggöngunum.

Það er þannig að það er ekki til neitt sem heitir öruggt kynlíf, smokkurinn er mjög góð vörn er ekki fullkomin. Hann veitir ákveðið öryggi en maður verður að taka því með fyrirvara. Smokkurinn getur rifnað og dottið af, svo eru alltaf nokkrar líkur á snertingu áður en smokkurinn er settur á. Það verður jú að nota hann rétt, hann verður að vera alltaf á – allan tímann. Það er þannig með kynfæravörtur eins og aðra kynsjúkdóma að það er alls ekki öruggt að maður smitist þó að maður sofi hjá einhverjum sem er smitaður. Það ræðst af ýmsu hversu líklegt er að maður smitist og það er nokkuð flókið að fara út í það. Eitt er víst að það þarf bara eitt skipti en stundum er maður heppinn. Ef maður sefur oft og mörgum sinnum hjá einhverjum sem er smitaður þá aukast líkurnar í hvert skipti á að maður smitist.

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þú fáir ekki fullnægingu af því að þú hefur smitast af kynfæravörtum. Reynið þið að fá meðferð við kynfæravörtunum, notið smokkinn (rétt) í nokkra mánuði og þá eru góðar líkur á að þið losnið við þessi leiðindi.

Kveðja,
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón Þorkell Einarsson, læknanemi