Geta ungbörn fengið hlaupabólu tvisvar?

Spurning:

Sonur minn er 8 og 1/2 mánaða og smitaðist um daginn af hlaupabólu af bróður sínum. Sá litli var útsteyptur í bólum og fékk mikinn hita. Nú hef ég heyrt að ef börn eru innan við 1 árs þegar þau fá hlaupabólu þá eigi þau á hættu með að fá hana aftur. Er það rétt?

Með von um svar

Svar:

Eins og fram kemur í umfjöllun Þórólfs um hlaupabólu er sjúkdómurinn mjög algengur og eru allir næmir fyrir sjúkdómnum frá fæðingu og þar til þeir hafa smitast en þá myndar líkaminn svo kölluð mótefni sem ráðast gegn veirunni ef hún kemst aftur inn í líkamann og eyðir henni. Veiran sem veldur hlaupabólu er mjög algeng í umhverfi okkar og sýkjast því flestir sem börn. Þó er sjaldgæft að börn sýkist fyrir 6 mánaða aldur því þau hafa enn mótefni sem þau fengu í fósturlífi frá móður. Þeir einstakligar sem sýkjast af hlaupabólu mynda ævilangt ónæmi fyrir veirunni á hvaða aldri sem þeir sýkjast og sýkjast því ekki aftur. Ef einstaklingur veikist hinsvegar af sjúkdómum síðar á ævinni sem leggjast á ónæmiskerfið getur það haft áhrif. Hvað varðar son þinn eru allar líkur á að hann hafi myndað fullkomið ónæmi fyrir veirunni. Vonandi svarar þetta spurningu þinni.
Gangi ykkur vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir