Geta vítamín verið kólesteróllækkandi?

Spurning:

Hvað segja læknar um vítamín sem auglýst er sem kólesteróllækkandi?

Svar:

Þetta er erfiður akur að plægja, það er svo mikið sem berst til okkar af auglýsingum og við kaupum stundum hluti í góðri trú. Kólesterólhækkun er afar mikilvægur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og við viljum helst taka á þeim þætti af fullri alvöru og helst ekki nota aðrar aðferðir en sannast hafa sem gagnlegar. Við vitum að mataræðisbreytingar geta haft heilmikil áhrif, lækkað kólesteról um 10-20%. Okkur reynist flestum erfitt í daglega lífinu að breyta miklu í því efni – en við eigum góð lyf sem geta hiklaust lækkað kólesterólið um 30-35% og það er sannreynt. Ég hygg að vítamín hafi ekki slík áhrif og aldrei verið sannreynt neitt í þá veru. Það hefur verið talað um að E-vítamín sé gott fyir hjartasjúklinga, en það hefur ekki sannast í tilraunum. Vítamín eru góð og við þurfum á þeim að halda til að halda góðri heilsu og best að við fáum þau í fæðunni. Ef okkur vantar vítamín, t.d. í skammdeginu er í góðu lagi að taka vítamín, en að nota vítamín sem lyf tel ég ekki sannreynt sem vísindi, nema við sjúkdómum sem stafa af vítamínskorti, en þeir eru sem betur fer orðnir afar sjaldgæfir meðal okkar.

Þorkell Guðbrandsson, hjartalæknir