Góðan daginn
Kærastan mín hefur verið að nota pilluna undanfarin ár en hún fær því miður mjög öflug mígreni af pillunni þannig að við skiptum yfir í smokkinn. Fyrir mig skemmir smokkurinn alla stemminguna þannig að ég hef verið að leita að eithverju öðru sem ég gæti notað, hún er búin að sjá um þetta undanfarin ár þannig að mér finnst alveg kominn tími á mig.
Ég fann aðra fyrirspurn hérna á síðunni um sama málefni en sú var frá 2001, það hlítur að vera komið eitthvað nýtt á margað núna er það ekki?
Sæll og þakka þér fyrir fyrirspurnina,
Það hefur því miður ekki verið nein breyting á þessum markaði. Einu valkostirnir í getnaðarvörnum karla eru ófrjósemisaðgerð eða smokkur.
Getnaðarvarnarlyf fyrir karla hafa verið í einhverri þróun á klínískum vettvangi, en svo virðist sem aðgengi að slíku sé enn fjarlægur draumur. Hafa meðal annars þónokkrar rannsóknir á lyfjum til getnaðarvarna karla verið stöðvaðar snemma í ferlinu vegna svipaðra aukaverkana og þeirra sem hljótast af getnaðarvörnum kvenna.
Ég hvet ykkur til þess að skoða þetta vel saman og finna út það sem hentar ykkur báðum best. Vil ég eindregið hvetja kærustu þína til þess að hætta notkun þessarar pillu, sem veldur henni mígreni, sem fyrst og ráðfæra sig við lækni hafi hún áhuga á öðrum tegundum getnaðarvarna. Til eru nokkur mismunandi form getnaðarvarna ætluð konum sem hver fyrir sig hefur sína kosti og galla.
Með kveðju
Auðna Margrét Harladsdóttir, hjúkrunarfræðingur