Spurning:
Hæ.
Langaði að fá upplýsingar um Seasonale-pilluna http://www.seasonale.com/. Er hún komin á markað hérna og á þetta að vera alveg óhætt að vera svona sjaldan á blæðingum? Takk
Svar:
Seasonale getnaðarvarnatöflur eru ekki komnar á markað hér á landi. Í raun er sama hormónasamsetning í þeim og Microgyn töflum sem eru á markaði hér. Munurinn er sá að í Seasonale pakkanum eru 84 virkar töflur og 7 óvirkar. Þær er teknar þannig að virkar töflur eru teknar í 12 vikur og svo óvirkar í eina viku. þannig verða blæðingar aðeins á 12 vikna fresti eða 4 sinnum á ári. Í Microgyn pakkanum eru 21 tafla á spjaldi eða þriggja vikna skammtur. Hlé er þannig tekið fjórðu hverja viku með tilheyrandi blæðingum. Um það hvort óhætt er að vera svona sjaldan á blæðingum hafa verið skiptar skoðanir þannig að ég vil ekki fullyrða neitt um það. Ef þú hefur áhuga á svona notkun getnaðrvarnartaflna ráðlegg ég þér að tala við kvensjúkdómalækni sem getur ráðlegt þér.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur