Spurning:
Ég var að velta því fyrir mér hvort að getnaðarvarnarpillan væri slæm fyrir
mígrenissjúklinga? Ég hef verið mjög slæm af mígreni undanfarið. Ég var
greind með mígreni þegar ég var 11 ára og byrjaði á mercilon þegar ég var 15
ára. Ég er semsagt búin að vera á pillunni í 7 ár núna. Ég var að ræða þetta
við vinkonu mína sem er einnig með mígreni og hún sagði að henni hefði verið
ráðlagt að hætta á pillunni. Mér hefur aldrei verið sagt að pillan gæti
verið slæm fyrir mígrenissjúklinga, er ekki ráðlagt að vera á pillunni þegar
maður er slæmur af mígreni?
Það hefur komið til tals að ég fari á fyrirbyggjandi mígrenislyf. Hverskonar
lyf eru það og hvernig verka þau?
Svar:
Það er rétt að getnaðarvartöflur eru af mörgum taldar geta valdið
mígreniköstum. Hversu algengt það er og hvort mismunandi samsetningar á
þeim hefur ólík áhrif er ekki gott að segja.
Þú skalt ráðfæra þig við lækninn þinn um hvort það borgar sig að hætta
að taka getnaðarvarnartöflurnar.
Ýmis óskyld lyf eru notuð til að fyrirbyggja mígreni.
Þar má telja svokallaða beta blokkara (Atenólól, Própranólól o.fl.), sem
eru sennilega þau lyf sem mest eru notuð til að fyrirbyggja mígreni, en
þau eru einnig notuð við háþrýstingi og hjartasjúkdómum, Serótónín
blokka (Sandomigrin) og alfa2-örvandi lyf (Catapresan). Einnig er þekkt
í þessum tilgangi notkun á calsíum blokkum (verapamíl, diltíazem,
nífedipín), sem eru lyf notuð við háþrýstingi og hjartasjúkdómum og
geðdeyfðarlyf ýmiss konar.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur