Getur barnið mitt gleymt mér?

Spurning:
Síðan yngra barnið mitt fæddist er ég búin að vera frekar leið og döpur enda hefur þetta verið erfiður tími, yngra barnið mikið lasið og það eldra átt erfitt með að aðlagast stærri fjölskyldu. Til að gera langa sögu stutta ákváðum við hjónin að ég myndi láta það eftir mér að skreppa í stutta ferð til útlanda til að slappa aðeis af og lyfta mér upp. Ég byrjaði því skipulega að draga úr brjóstagjöf og það hefur gengið vel. Núna hinsvegar er ég að sálast úr stressi því ég er svo hrædd um að ef ég fari þá muni barnið gleyma mér! (7 og hálfs mánaða). Spurningin er semsagt þessi, getur barn á þessum aldri beðið einhvern skaða af því að mamma fari í burtu í 4-5 daga og getur barnið ,,gleymt" mér á þessum tíma?

Svar:
Vertu bara róleg – börn hafa lengra minni en gullfiskar. Það er engin hætta á að barnið gleymi þér þótt þú farir í nokkra daga í burtu en það getur verið soldið móðgað við þig þegar þú kemur aftur heim. En taktu það ekkert nærri þér – eftir fríið verður þú væntanlega ánægðari mamma og hefur þ.a.l. meira að gefa af þér og litla krílið jafnar sig fljótlega. Gættu þess líka að gefa stóra barninu góðan tíma – oft lagast svona aðlögunarerfiðleikar betur ef maður gefur barninu sinn sérstaka tíma þar sem það hefur óskipta athygli manns í dálitla stund eins og að fara saman út að ganga eða í sund, bara stóra barnið og mamma/pabbi.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir