Spurning:
Sæll.
Í bókinni Líkama fyrir lífið er mælt með nokkrum próteinríkum fæðutegundum (helst kjöti ýmisskonar og eggjahvítum).
Geturðu mælt með einhverri próteinríkri morgunnæringu sem hentar vel að borða á morgnanna. Því hér á Íslandi tíðkast bara ekki að borða kjöt og spæld eða hrærð egg í morgunmat.
Kveðja
Svar:
Komdu sæl/sæll.
Ég vil skora á þig að lesa gagnrýni mína á bókina Líkami fyrir lífið undir fyrirsögninni: Líkaminn fyrir lífið – skoðun næringarfræðings. Prótein er ríkulega að finna í afurðum eins og kjötmeti, fiski, mjólk og mjólkurmat sem og baunum. En einnig er prótein að sjálfsögðu að finna í kornmeti, ávöxtum og grænmeti þó ekki í miklu magni sé. Góð próteinrík morgunmáltíð gæti t.a.m. verið tvær brauðsneiðar (70 grömm af brauði gefur um 6 grömm af próteinum), önnur með skinku (20 grömm af skinku gefur um3 g af próteinum) og hin með osti (15 grömm af osti gefa um 4 grömm af próteinum), skolað niður með mjólk (2,5 dl gefa um 9 grömm af próteinum) og í eftirrétt gómsætt skyr (200 g gefa um 27 grömm af próteinum). Samtals gefur þessi máltíð því um 50 grömm af próteinum.
Hafa skal í huga að ráðlagður dagskammtur af próteinum fyrir meðal manninn er 0,8 grömm fyrir hvert líkamskíló sem merkir að 80 kílógramma einstaklingur þarf á 64 grömmum að halda ef miðað er við ráðlagðan dagskammt. Aftur á móti er meðal þörf manna á próteinum einungis um 0,5 grömm fyrir hvert líkamskíló (nánari upplýsingar að finna undir fyrirsögninni: Líkami fyrir lífið – gagnrýni næringarfræðings). Þessi einfalda morgunmáltíð sem ég gaf hér fyrir ofan ætti að færa öllum heim sannin um það að með neyslu hefðbundinnar fæðu er lítið mál að fullnægja próteinþörfinni og því engin ástæða til að úða í sig eggjahvítum eða kjötmeti og þaðan af síður fæðubótarefni í formi próteinsdufts eða amínósýra (en amínósýrur eru byggingarefni próteina). Nánari upplýsingar undir fyrirsögninni: Íþróttaiðkun og próteinneysla.
Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur