Spurning:
Sæll.
Ég eignaðist barn í febrúar 1995 og var mjög slæm af verkjum á meðgöngunni. Ljósmóðirin sagði mér að væri grindargliðnun. Núna síðustu mánuði hef ég verið að fá þessa verki aftur eða allavega mjög svipaða og er ekki ófrísk.
Getur eitthvað annað en þungun orsakað grindargliðnun eða er þetta eitthvað annað sem hrjáir mig?
Fyrirfram þakkir.
Svar:
Sæl.
Við þungun mýkjast öll liðbönd líkamans vegna ákveðinna hormónabreytinga sem eiga sér stað. Þessar breytingar verða hjá öllum barnshafandi konum og valda yfirleitt litlum eða engum óþægindum. Stundum verða hins vegar liðir mjaðmargrindarinnar hreyfanlegri en æskilegt má teljast. Liðböndin styðja þá ekki nægilega vel við mjaðmargrindina og geta valdið verkjum við minnsta álag. Ef verkirnir eru farnir að hafa verulega áhrif á daglegt líf konunnar getur verið um grindarlos að ræða.
Flestar konur losna við þessi einkenni fljótlega eftir fæðinguna. Dæmi eru þó um að kona sem hefur fengið grindargliðnun á meðgöngu finni áfram fyrir mjaðmargrindarverkjum eftir fæðingu, einkum eftir ákveðið álag. Álagið sem getur framkallað verkina getur m.a. verið langar göngur og/eða setur, göngur á ójöfnu undirlagi, gólfþrif og pallaleikfimi svo að eitthvað sé nefnt. Einnig er þó nokkuð algengt að mjaðmargrindarverkir geti komið fram meðan á blæðingum stendur þó að hún finni ekki fyrir þeim að öðru leyti. Ef þú kannast við að hafa fengið væg einkenni við eitthvað af ofangreindu undanfarin ár má segja að þú sért ennþá með grindargliðnunareinkenni í kjölfar meðgöngu.
Verkir frá liðböndum koma venjulega eftir álag en ekki meðan á átakinu stendur. Þess vegna er svo algengt að konan viti ekki um hina eiginlegu orsök. Hún er þá e.t.v. búin að gleyma því hvað varð þess valdandi að koma verkjunum af stað að nýju. Ef þú hefur hins vegar ekki fundið fyrir neinum einkennum frá því ári eftir fæðingu finnst mér ólíklegt að um grindargliðnun sé að ræða. Við erum fædd með mismunandi mjúkan/stífan bandvef í líkamanum. Ef þú ert ein af þeim sem hafa ofhreyfanleika almennt í liðum getur þú hæglega fengið svipuð einkenni og grindargliðnun ef þú beitir ekki líkamanum rétt. Þú þyrftir að fá skoðun hjá lækni og/eða sjúkraþjálfara til að fá úr þessu skorið.
Ef til vill þarftu eingöngu á réttri styrktarþjálfun og líkamsbeitingu að halda til að losna við þessi einkenni.
Kveðja,
Erna Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari í Styrk.