Spurning:
Sæll.
Ég er 15 ára stelpa og var með strák fyrir um einum og hálfum mánuði (sem sagt við „gerðum það") þetta var i fyrsta skipti sem ég „svaf" hjá strák. Þessa dagana er einhver ógeðsleg flensa að ganga (þar sem ég á heima) og í síðustu viku lá ég alla vikuna i rúminu með kvef, hita, höfuðverk og beinverki og það eru víst mjög margir búnir að fá þessa flensu ef ekki allir. Núna er ég alveg laus við flensuna nema ég er ennþá með kvefið (er búin að vera með það í 2-3 vikur) og svo er ég ennþá með höfuðverk.
Það sem ég hugsa mest um er að þessi höfuðverkur er ekki eins og ég hef alltaf fengið. Höfuðverkurinn er þannig að ef ég ýti á ennið á mér þá finn ég rosalega mikið til og ég er alltaf bara með höfuðverk einum stað ekki í öllu höfðinu. Mamma segir að þetta sé bara kvefið og það gæti verið að ég sé með stíflaðar ennisholur.
Um daginn gat ég ekki mætt í vinnu þar sem ég táraðist af sársauka og mamma hringdi í lækni og spurði hvað væri hægt að gera og hann sagði mér að fara yfir heita gufu og vera þar í smátíma og ég gerði það og það virkaði alveg ágætlega. En svo fór ég að lesa einhversstaðar að einkenni alnæmis væru kvef, höfuðverkur og svona flensur og eitthvað í þá áttina. Þegar ég var með stráknum notuðum við ekki smokk allan tímann en vorum samt ekki lengi að eftir að við slepptum smokknum og ég er ekki á pillunni. En svo fékk hann það og ég gleypti. Mig langar að vita hvort það séu miklar líkur á að ég sé með þennan sjúkdóm eða er þetta bara kvef eða stíflaðar ennisholur????
Ég þori ekki að fara á sjúkrahúsið og láta athuga þetta.
Kveðja.
Svar:
Sæl.
Það eru ekki miklar líkur á að þú sért með HIV smit, en ég get náttúrulega ekki staðfest að svo sé ekki. Mestar líkur eru á að þetta sé rétt hjá mömmu þinni með kvefið. Það er alveg rétt að fyrstu einkenni HIV sýkingar eru eins og þú lýstir, en þetta á líka við um til dæmis Herpes. Það er mikilvægt að vera óhrædd við að leita til læknis þegar svona kemur uppá. Það er sjálfsagt að láta athuga sig eftir að hafa stundað óvarðar samfarir með einhverjum ókunnugum. Ég ætla svo bara að minna þig á að smokkurinn verður að vera á allan tímann – alltaf, ekki bara stundum.
Kveðja,
f.h. Félags um forvarnir læknanema,
Jón Þorkell Einarsson