Spurning:
Sæll.
Þannig er mál með vexti að ég greindist með Klamydíu fyrir 2 vikum Ég var sett á sýklalyf í 13 daga ásamt kærasta mínum. Ég var í rauninni búin að vera með útferð og fleiri einkenni (hélt alltaf að ég væri með sveppi).
Ég fór tvisvar og lét kanna þetta hjá lækni en ekkert virðist haf komið út úr því (fékk allavega ekki að vita annað en að allt væri í lagi.
Ég veit ekki hvort það hafi verið tekin sérstök klamydíusýni enda datt mér ekki í hug að ég væri með Klamydíu. En svo nokkrum dögum eftir að ég greindist með Klamydíu þá var hringt í mig og þá hafði ég einnig verið með Streptókokkasýkingu í leggöngunum.
Það sem ég óttast mest núna er ég sé ófrjó. Ég var reyndar ófrísk en missti fóstrið eftir 10 vikur, það er rúmlega mánuður síðan, getur verið að ég hafi misst fóstrið útaf Klamydíunni? Hvernig getur maður komist að því hvort maður sé orðin ófrjór. Er nóg að fara í sónar hjá Kvensjúkdómalækni eða verður það bara að koma í ljós þegar ég reyni að verða ófrísk.
Ég hef tvisvar farið í krabbameinisskoðun síðan ég byrjaði með kærastanum mínum, sjá þeir þetta ekki þar. Er ekki tekið sýni þar?
Þetta eru svona spurningar sem eru að þvælast fyrir mér í huganum, vonast til að fá svar við þessum vangaveltum og í rauninni áhyggjum.
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Sæl.
Í fyrsta lagi þá er möguleiki að Klamydíusýkingin hafi valdið fósturlátinu, það er þó alls ekki víst. Þú skalt ekki hafa miklar áhyggjur af ófrjósemi á þessu stigi, þú skalt þó fara aftur í skoðun til að tryggja að sýkingin sé búin og ræða við kvensjúkdómalækni.
Í krabbameinsskoðun er tekið frumustrok sem er skoðað með tilliti til frumubreytinga. Það er ekki sent í sýklarannsókn og því tengist það ekki Klamydíurannsókn.
Kveðja,
f.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón Þorkell Einarsson