Getur krabbamein myndast í ristilpokum?

Spurning:
Sæl(l), finn ekkert um poka á ristli. Ég er 26 ára gömul og greindist með stóra poka á ristli fyrir 2 árum síðan þegar ég fékk sýkingu í einn af þeim – fór í speglun og tekið var sýni og taldi Tryggi Stefánsson að um sepa væri að ræða en svo kom í ljós að svo var ekki. Er núna með undarlega magaverki s.s.þaninn kvið, flökurt og stundum magaverki en þó ekki nálægt því eins mikla og þegar ég fékk sýkinguna – enda færi það ekki fram hjá mér, einnig er ég með ýmist harðar eða linar hægðir og verð að hlaupa á klósettið þegar mér er mál… mig langar að vita aðeins meira um svona poka, getur verið að þetta sé upphafið að sýkingu – eru líkur á að myndast getur KRABBAMEIN í pokunum, þar sem maður er ekki í neinu eftirliti? Þegar ég fékk sýkinguna fyrir tveimur árum fékk ég engan fyrirvara – engin einkenni sem bentu til þess að um poka væri að ræða og eru pokarnir ekki á hefðbundum stað að mér skilst heldur rétt fyrir neðan rifbeinin vinstra megin.

Svar:
Sælar.

Ristilpokar (diverticulosis) er algengur sjúkdómur í ristli, sérstaklega hjá eldra fólki, en fremur óalgengur hjá yngri einstaklingum, eins og þér. Sjúkdómurinn er oftast einkennalaus en hægðabreytingar eru algengustu einkennin. Stundum kemur sýking í einn eða fleiri poka (diverticulitis á ensku) og stundum oftar en einu sinni, og lýsir hún sér með kviðverkjum í vinstri neðri hluta kviðar, hægðabreytingum og hita. Sjúkdómurinn hefur engin tengsl við ristilkrabbamein. Einkennin sem þú lýsir geta tengst pokunum en án sýkingar (krampar í ristlinum). Ekki eru góðar upplýsingar um sjúkdóminn á íslensku en ef þú skilur ensku getur þú prófað meðfylgjandi slóð – http://digestive.niddk.nih.gov/ddiseases/pubs/diverticulosis/index.htm.
Ég ráðlegg þér að leyta til Tryggva ef þú ert slæm til frekari mats.
Ég mun reyna að skrifa grein um fyrirbærið á næstunni til birtingar í Doktor.is.

Bestu kveðjur

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum