Getur maður orðið háður kaffi?

Spurning:

Ég er 27 ára gamall karlmaður og drekk verulega mikið kaffi í vinnunni (líka um helgar). Dagleg kaffidrykkja mín er ein til tvær könnur á dag. Eitt sinn fór ég í frí og tók mér líka frí frá kaffinu. Þá fékk ég svo heiftarlegan höfuðverk, að ég varð að leggjast fyrir. Það þýddi ekkert að taka verkjatöflur. En það nægði að drekka einn kaffibolla, þá hvarf verkurinn. Ég fæ mér einn stóran bolla og eftir hálftíma er verkurinn horfinn en eftir fimm til átta klukkustundir verð ég að fá mér annan bolla, annars fæ ég höfuðverk aftur.
Mig langar að spyrja hvort það geti talist „eðlilegt" að fá dúndrandi hausverk af því einu að hætta að drekka kaffi? Hvað á ég að gera til að losna við hann? Ég hef engan áhuga á að vera háður því að drekka tvo til þrjá bolla af kaffi á dag.

Svar:

Kaffi inniheldur koffein, sem er örvandi og mjög vanabindandi og mjög auðvelt að verða því háður. Þeir sem drukkið hafa þetta mikið magn af kaffi daglega um langan tíma eru orðnir líkamlega háðir því að fá koffein. Ef svo mikilli kaffidrykkju er skyndilega hætt fer líkaminn að sýna fráhvarfseinkenni sem meðal annars eru höfuðverkur eins og þú lýsir svo vel. Það er mjög jákvætt að þú viljir losna úr vítahring koffeinvanans og besta leiðin til þess að ná árangri til langs tíma er að minnka kaffidrykkjuna smám saman. Ein leiðin til þess að koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni er að draga úr neyslunni í áföngum á nokkrum dögum eða vikum og samhliða auka vatnsdrykkju, en vatnið hjálpar til við að flýta fyrir losun úrgangsefna úr líkamanum. Gangi þér vel!

Kveðja,
Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir