Getur mótefnasprauta valdið fósturláti?

Spurning:

Sæl.

Ég lenti í slysi fyrir nokkrum árum þegar ég var komin 38 vikur á leið og varð blæðing í fylgju þannig að það fannst fósturblóð í mínu blóði. Þannig er mál með vexti að ég er í mínusblóðflokki en barnið í plúsblóðflokki en það er allt í lagi með hana í dag.

Eftir slysið fékk ég mótefnasprautu en tveimur dögum seinna þurfti ég að fá þrefaldan skammt í viðbót af mótefninu, því blæðingin var víst meiri en læknarnir töldu í fyrstu. Nú hef ég verið að reyna að eiga annað barn en hef misst tvisvar sinnum fóstur, í fyrra skiptið dó það á tíundu viku og þurfti ég að fara í útskröpun en í seinna skiptið fór að blæða og missti ég það á 8 viku.

Eru einhverjar líkur á að ég sé að mynda mótefni gegn fóstrinu og ef svo er hvað er þá til ráða? Get ég átt fleiri börn þ.e. sem eru í plúsblóðflokki og ef svo er hvað er þá gert? Maðurinn minn er nefnilega í plúsblóðflokki.

P.S. það leið hálft ár á milli þunganna.
Með fyrirfram þökk og von um einhver svör.

Svar:

Sæl.

Það er mögulegt að þú hafir misst fóstrin vegna mótefnamyndunar. Þótt þú hafir verið komin stutt á leið er sá möguleiki fyrir hendi að líkami þinn þekki aftur blóðflokkinn sem olli uslanum áður og sé að hafna fóstrinu.

Áður en þú verður næst þunguð ættir þú að ráðfæra þig við lækni sem er sérfræðingur í Rhesusvörnum á meðgöngu. Þú getur fengið upplýsingar um þetta hjá ljósmæðrum á Miðstöð Mæðraverndar í Mjódd og á kvennadeild Landspítalans. Það er mögulegt að þú þurfir einhverja meðferð áður en þungun verður svo ef þú ert nú þegar að hugsa um þungun skaltu endilega fá úr þessu skorið og fá viðeigandi meðferð sem fyrst.

Vona að þetta lukkist hjá þér.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir