Getur pillan valdið fósturgalla?

Spurning:
Þannig er að við erum að reyna að eignast annað barn. Ég hætti á pillunni fyrir mánuði og höfum ekki notað neina getnaðarvörn síðan. Er það virkilega hættulegt fyrir barnið að verða til stuttu eftir að hætt er á pillunni? Það var talað um að barn sem væri getið svo stuttu eftir pillunotkun gæti fengið t.d. hjartagalla. Er eitthvað til í þessu, því annars langar mig ekkert að reyna þetta strax.

Svar:
Hvaðan þessi tilgáta er komin veit ég ekki, en ég gat ekki með nokkru móti fundið að sýnt hafi verið fram á tengsl pillunotkunar við fósturgalla – sérstaklega ef konan er hætt að taka pilluna fyrir meðgöngu. Hormón pillunnar skiljast hratt úr líkamanum eftir að töku hennar er hætt. Þegar getnaður verður eru því öll áhrif hennar horfin og því hæpinn möguleiki að pilluhormónin geti valdið fósturskaða.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir