Getur Retafer haft áhrif á brjóstagjöf?

Spurning:

Góðan daginn!

Getur Retafer haft áhrif á hægðir brjóstabarna?

Ég hef þurft að taka Retafer inn síðustu 5 mánuði vegna blóðleysis og járnskorts á meðgöngu og eftir fæðingu. Getur verið að lyfið hafi áhrif á hægðir barnsins (nú 3 1/2 mánaða)? Þær breyttust skyndilega fyrir viku síðan og eru nú vatnskenndar, froðukenndar og grænar.

Kveðja

Svar:

Góðan dag.

Járn úr fæði móðurinnar útskilst í einhverjum mæli út í brjóstamjólkina en veldur yfirleitt engum vandkvæðum. Hafir þú verið að taka Retafer í 3 1/2 mánuð án þess að barnið hafi fengið í magann af því finnst mér hæpið að það sé ástæðan fyrir breytingunni á hægðum barnsins. Vatnskenndar, freyðandi, grænar hægðir eru oftast merki um formjólkurofeldi. Formjólkurofeldi skapast af því að móðirin er með góða mjólkurframleiðslu og barnið drekkur frekar stutt af hvoru brjósti þannig að það fær ekki rjómann sem kemur síðast í gjöfinni. Til að bæta úr því borgar sig að láta barnið drekka lengi af hvoru brjósti og gefa jafnvel bara annað bjóstið í gjöf. Ef þetta lagast ekki fljótlega ættirðu að ræða við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni og fá e.t.v. aukavigtun á barnið og skoðun og leiðbeiningar.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir