Getur sonur minn verið viðstaddur fæðinguna?

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er barnshafandi og á einn son fyrir sem er sex ára. Hann er afar spenntur yfir væntanlegu systkini og biður um að fá að vera hjá mér þegar það fæðist. Hann hefur mikinn áhuga á fæðingum barna (ætlar að verða ljósfaðir!) og á mikið af sjónvarpsefni á myndböndum þar sem barnsfæðingar koma við sögu. Ég vil leyfa honum að vera viðstaddur en hef sagt honum að í undantekningartilfellum fái enginn að vera inni. Er einhver sem getur bannað mér þetta?

Kær kveðja,

ljósföðurmóðir

Svar:

Sæl ljósföðurmóðir.

Þú ert vitaskuld besti dómarinn á það hvað þinn strákur getur og getur ekki. Ef hann fær góðan undirbúning (verkir, legvatn, blóð, barnið blátt þegar það fæðist o.s.frv.) eru minni líkur á að hann verði hræddur. Það má þó ekki líta fram hjá því að þótt börn sýni mikinn áhuga á að sjá systkin fæðast og fái góðan undirbúning, þá verður atburðurinn oft ógnandi þegar á hólminn er komið. Einnig geta hlutir farið á annan veg en ætlað var og þá er erfitt fyrir litla sál að vera þátttakandi í því. Best fer á því að hafa einhvern fullorðinn með sem hefur það hlutverk að sinna unga manninum og útskýra það sem gerist og fara með hann fram ef hlutirnir verða honum um megn. Það er sjaldgæft að konur komi með börn með sér þegar þær koma til að fæða og þess vegna ekki víst að tekið verði jákvætt í það á fæðingardeildinni ef þú kemur með soninn, þinn stuðningsaðila og stuðningsaðila sonarins með þér til að fæða án þess að fólkið þar viti af því áður. Mér fyndist ekki úr vegi að þú skrifaðir yfirljósmóður fæðingardeildarinnar bréf þar sem þú setur fram þessar óskir þínar. Eða hringir í hana. Eins veit ég fyrir víst að margar konur hafa haft börnin með sér í heimafæðingu, enda hægara um vik að hafa alla sem maður vill hafa með sér á eigin heimili. Bestu kveðjur til litla ljósföðurins.

Gangi ykkur vel,

Dagný Zoega, ljósmóðir