Getur sveppasýking skaðað ófætt barn?

Spurning:
Góðan daginn.
Mig langar að fá smá upplýsingar hjá ljósmóðurinni. Ég er ólétt og er komin um 27 vikur á leið og er nýbúin að finna fyrir einkennum sveppasýkingar, s.s. kláða, sviða og óþægindi í kynfærunum. Ég er að nota Pevaryl núna sem önnur ljósmóðir benti mér á að gera en mig langar að spyrja um eitt. Er sveppasýking eitthvað sem getur skaðað barnið? Og getur maður verið löngu búinn að fá sýkinguna þó maður finni ekki fyrir óþægindunum strax eða finnur maður óþægindin um leið og sveppasýkingin byrjar? Með von um skjót svör og takk fyrir. Áhyggjufull.

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Sveppasýking er af völdum svepps sem er til staðar í líkamanum. Sýkingin er á yfirborðinu og einungis til staðar í slímhúðum og á húð og fer ekki lengra inn í líkamann. Sveppurinn þrífst í röku og hlýju umhverfi, þannig að leggöngin er ákjósanlegur staður. Vegna hormónaáhrifa fá konur á barneignaraldri frekar sveppasýkingu og enn frekar barnshafandi konur. Það er ekki svo ég viti til um hættu fyrir barnið þitt, hvorki fyrir fæðingu né í fæðingunni. Í leghálsinum sér slímtappinn um að halda sýkingarvöldum frá barninu og þó hann fari eru belgirnir sem barnið er í einnig vörn fyrir sýklaflóru umhverfisins. Þetta er fyrst og fremst óþægilegt fyrir þig og því rétt að meðhöndla það. Pevaryl kremið sem að þú ert að nota virkar staðbundið og nær ekki til barnsins. Ég held að einkenna verða vart nokkuð fljótt og það fari ekki milli mála ef maður er með sveppasýkingu, þessi einkenni sem þú lýstir eru týpisk einkenni sveppasýkingu. Þ.e kláði í og umhverfis leggöng, getur verið mismikill, hvítleit útferð, erting í slímhúð legganga og skapabarmar geta verið rauðir og þrútnir. Þú getur fengið eitt eða fleiri af þessum einkennum og í versta falli öll á sama tíma.
Nokkur góð ráð: Reyna að halda svæðinu sem mest þurru, nota helst ekki sápu, ef notuð er sápa er Lactasyd til dæmis hentug þar sem að hún er með lágt ph gildi. Eftir bað er gott að þurrka svæðið með mjúku handklæði. Nota nærbuxnainnlegg í hófi oft eru plastefni á yfirborði þeirra sem geta valdið ertingu. Reyna að klóra sér sem minnst því það ertir enn frekar og getur dreift sveppasýkingunni um svæðið gott er að nota kaldan bakstur eins og kaldan þvottapoka á skapabarmana, það dregur úr kláðanum.. Ekki vera í nærfatnaði úr gerviefnum og sofðu án nærbuxna á nóttinni. Notaðu bómullarnærbuxur á daginn og vertu í léttum, víðum fötum. Vona að þessar upplýsingar komi að góðum notum og þú losnir við þessi óþægindi sem fyrst.
Bestu kveðjur,
Ásthildur Gestsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.