Spurning:
Sæll.
Ég er nýbúin að vera með sveppasýkingu í leggöngum og langar að vita hvort það sé eðlilegt að eftir smátíma sé sviði og hreinlega vont að hafa samfarir?
Svar:
Sæl.
Það er mjög algengt að konur sem eru með sveppasýkingu í leggöngum finni fyrir sviða eða brunatilfinngu. Slímhúðin í leggöngunum er aum, sár og þurr, sáðvökvi veldur því líka að umhverfið í leggöngunum breytist sveppnum í hag.
Þú ættir að athuga hvort að þú hafir meðhöndlað þetta nógu lengi og svo skaltu fara í einu og öllu eftir ráðleggingum varðandi sveppasýkingar. Þvoðu þér með sápu að hámarki einu sinni á dag, reyndu helst að nota bara volgt vatn og sleppa sápunni.
Notaðu bómullarnærbuxur eða föt sem ekki eru mjög þröng. Hreinlæti og góð heilsa minnka líkur á sveppasýkingu þó sumir einstaklingar séu móttækilegri en aðrir og fái sveppasýkingar mun oftar. Sveppasýkingin í leggöngunum eykst ef sveppurinn fær viðeigandi næringu. Í leggöngunum finnast ávallt „auðmeltar“ sykurtegundir og þeim fjölgar ef blóðsykurgildin hækka. Forðist því að borða sætindi eins og hægt er.
Hafir þú skipt um rekkjunaut nýlega þá ættirðu líka að fá staðfestingu á því að þú sért ekki með bakteríu- eða veiruleggangasýkingu.
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi