Gigt og Enbrel?

Spurning:
Mig langar að spyrja um gigt. Ég var greind með slit- og vefjagigt fyrir 15 árum síðan en er alltaf að versna og er ég búin að fá 3 slæm köst frá áramótum og þetta síðasta var mjög slæmt og hefur verið í 10 daga og er ég enn mjög þreytt, hef enga orku og mig langaði að spyrja ykkur hvort ég gæti verið komin með önnur afbrigði af gigt. Ég er búin að vera slæm í öllum skrokknum og þá sérstaklega í upphandleggjum og fótum, mér finnst ég ekki bera sjálfan mig ligg bara í rúminu, en þetta er aðeins að ganga til baka ég var ekki með neinn hita. Ég tek inn gigtarlyfið Relifex 500mg og líka Neurontin 600mg til að ná dýpri svefn tek líka Ibúfen 400mg og er einnig á kvíðalyfinu Seroxat, en mér finnst ömurlegt þegar öll gleði er farin af manni, ég sem hef alltaf verið mjög kát og glöð, en það er ekki í dag, finnst bara enginn tilgangur með þessu alltaf slöpp, er dæmdur öryrki og hef verið það síðan 2000. Hef farið í meðferð á Reykjalund og var það mjög gott, er einnig í sjúkraþjálfun 2 í viku hjá Styrk hjá alveg yndislegri stúlku. Mig langaði einnig að spyrja ykkur um lyfið Enbrel, frétti frá Bandaríkjum að það væri notað við gigt en ekki bara liðagigt hvernig er það hér? Er í sambandi við Íslenska stúlku sem flutti út fyrir ári síðan og var hún vitlaust greind hér heima en fékk rétta greingu og er komin á þetta lyf og er allt önnur. Jæja ég gæti spurt um svo mikið í sambandi við þetta en ég ætla að láta þetta duga í bili.

P:S fór í blóðprufu síðasta föstudag og bað heimilslæknirinn að taka líka gigtarpróf þannig að ég bíð eftir niðursöðum úr því,

Með kærri kveðju ein sem er orðin ansi þreytt.

Svar:

Enbrel er svokallað bremsulyf. Í dag eru milli 60 – 80 einstaklingar sem nota lyfið Enbrel á Íslandi með góðum árangri í flestum tilfellum. Fjölgunin hefur orðið mikil síðustu 2 árin þar sem framleiðslutakmarkanir voru á lyfinu í byrjun, en hafa nú verið leystar. Það má nefna að fyrstu árin höfðu Íslenskir gigtlæknar aðeins leyfi fyrir lyfinu fyrir 6 einstaklinga. Lítið hefur borið á aukaverkunum en nokkrir hafa þó verið látnir hætta á lyfinu vegna ofnæmisviðbragða og þröskuldurinn hafður lágur í því mati.

Enbrel er notað af gigtasérfræðingum hér sem meðferð við ýmsum tegundum gigtar og má þar nefna iktsýki, psoriasisgigt, hryggikt ofl. Í byrjun voru það þeir einstaklingar sem verst voru farnir af iktsýki sem fóru á lyfið, en í dag er valið í höndum gigtarsérfræðinganna í samráði við sjúklinginn.

Remicade er oft fyrsti valkosturinn þar sem það hefur reynst vel hjá flestum (í dag um 180 manns) og er jú ódýrari kostur að velja.

Gigtarlyf sem tekin voru af markaði, voru aftur á móti ný tegund bólgueyðandi lyfja eða svokallaðir cox-2 hemjarar. Vioxx var eitt þeirra lyfa. Þegar það var tekið af markaði stóð eftir stórt skarð hjá mörgum gigtarsjúklingum þá sérstakega slitgigtarsjúklingum sem notuðu lyfið með góðum árangri án aukverkana.

Það sem hefur komið í staðinn fyrir þetta eru aðrir cox-2 hemjarar eins og Celebra og Arcoxia. Þessi lyf eru notuð að vel athuguðu máli þeirra sérfræðinga sem ávísa lyfjunum.

Bestu kveðjur

Starfsfólk Gigtarlínu GÍ