Góðan dag , ég var greynd með glutenóþol fyrir 14 árum , fyrir ca 3 árum hætti ég að þola mjólkursykur en nú þoli ég alls ekki mjólk, , hver getur verið orsökin
Með fyrirfram þökk
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina
Glútenóþol og mjólkuróþol haldast oft í hendur. Mjólkuróþol lýsir sér þannig að líkaminn framleiðir ekki nóg af ensíminu laktasa sem brýtur niður mjólkursykurinn (laktósa) svo hann situr eftir í meltingarkerfinu og veldur niðurgangi. Með hækkandi aldri minnkar framleiðsla líkamans á laktasa og því algengt að fólk eigi erfiðara með að melta mjólkurvörur á fullorðinsárum. Einnig getur mjólkuróþol komið fram í kjölfar annara smáþarmasjúkdóma eins og glútenóþols eða ef slímhimna smáþarmanna hefur skaddast við t.d. niðurgang.
Mjólkurofnæmi er það svo kallað þegar fólk þolir engar mjólkurvörur vegna ofnæmis fyrir próteinum (mysu- eða kaseinpróteininu) sem finnst í öllum mjólkurvörum. Hægt er að greina mjólkurofnæmi með blóðprufu eða ofnæmisprófi hjá lækni. Erfitt getur verið að segja til um það afhverju fólk fær ofnæmi en það getur verið ættgengt eða vegna umhverfisþátta.
Það er ekki gott að segja hvort þú sért búin að þróa með þér mjólkurofnæmi eða hvort mjólkuróþolið sé að versna en hægt er að skera úr um það hjá lækni. Einnig er hægt að fá ýmis meltingarensím í apótekum sem geta hjálpað til við niðurbrot á laktósa sem ég hvet þig til að prófa.
Gangi þér vel.
Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.