Grátur í svefni: Er eitthvað að?

Spurning:

Tveggja mánaða gamall sonur minn grætur oft upp úr svefni og hefur gert frá því hann var u.þ.b. 3ja vikna. Er ástæða til að ætla að eitthvað sé að?

Svar:

Æ, litla skinnið. Það er erfitt að vita hvað angrar svo lítið barn. Ef hann grætur en vaknar ekki gæti hann verið að dreyma illa eða kannski honum sé of heitt eða of kalt, hann með pílur í maganum eða óþægindi einhverskonar. Stundum getur streita úr umhverfinu eða í fjölskyldunni smitað yfir í nætursvefninn, svo rólegt umhverfi og blíðlegt viðmót er vitaskuld nauðsynlegt ungum börnum. Hafðu hann bara nálægt þér og klappaðu honum blíðlega þegar hann grætur ogef hann vaknar skaltu ekki bíða með að taka hann upp og láta vel að honum. Það væri ekki þó úr vegi að láta lækni líta á hann ef hann heldur þessu áfram til að útiloka eyrnabólgu, vélindabakflæði eða þvagfærasýkingu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir