Grennist og léttist eftir meðgönguna

Spurning:

Sæl.

Ég á eins árs stelpu og ég er ennþá að grennast og léttast eftir að ég átti hana. Ég er 21 árs, 170 cm á hæð og er um 50 kíló. Ég hef verið á bilinu 56-59 kíló frá því ég var 16 ára og er mér ekki farið að lítast á blikuna. Ég borða vel og reglulega og fer út í göngutúra. Allir í kringum mig hafa áhyggjur og halda að ég sé eitthvað veik, ég hef þurft að kaupa mér ný föt því þau gömlu hanga á mér.

Er þetta algengt eftir meðgöngu?

Ég vona að þú getir gefið mér ráð því ég er orðin þreytt á þessu.

Svar:

Sæl.

Þú getur þess ekki hvort barnið er ennþá á brjósti. Stundum grennast konur mikið meðan þær eru með barn á brjósti og það getur tekið þær nokkra mánuði að ná sinni kjörþyngd að nýju. Ef barnið er hætt á brjósti en þú heldur samt áfram að grennast þrátt fyrir góða matarlyst og skynsamlegt mataræði gæti verið um brenglun á innkirtlastarfsemi að ræða og dettur mér fyrst í hug ofvirkur skjaldkirtill. Ræddu þetta endilega við heimilislækninn þinn því hann getur með blóðprufu séð hvort um eitthvað slíkt er að ræða.

Gangi þér vel,

Dagný Zoega, ljósmóðir