Grindarverkir

Spurning:

Sæl verið þið.

Ég hef ákveðið að skrifa til ykkar með von um ráðleggingar! Ég fæddi barn fyrir 11 mánuðum og fann fyrir grindarverkjum frá sacroiliacalið hægra megin strax á 5 mánuði. Heimilislæknir sendi mig með enga sjúkdómsgreiningu til sjúkraþjálfara á 7. mánuði. Sjúkraþjálfarinn skoðaði mig ekkert og greindi mig ekki með grindarlos og eftir að hafa nuddað mig í nokkur skipti setti hann mig beint í styrktaræfingar sem gerðu illt verra svo ég hætti í sjúkraþjálfun eftir 5 vikur. Ég ákvað svo að reyna að bíða þessa verki af mér en gafst upp þegar barnið var orðið 6 mánaða og farið að síga í því þá versnaði ég frekar en hitt. Nú reyni ég að hafa allar klær úti til að ná bata því þetta lagast augljóslega ekki af sjálfu sér. Ég er því byrjuð aftur í sjúkraþjálfun (hjá öðrum sjúkraþjálfara) hef nú fengið greininguna grindarlos og nú veit ég að ég er með skekkju í mjaðmagrind skv. röntgen og skoðun. Sjúkraþjálfarinn segist lítið geta hjálpað mér en er með einhverja tilraunastarfsemi í gangi við að fetta mig og bretta og þrýsta af miklu afli niður á spjaldhrygginn og segist vera að reyna að rétta hann, þetta er logandi sárt og ég er skíthrædd um að hann endi á því að skemma eitthvað því ég á bágt með að komast heim eftir tímana. Sjúkraþjálfarinn hefur augljóslega ekkert meðferðarmarkmið enga meðferðaráætlun og það er bara einhver hending sem ræður því hvað hann gerir í tímunum. Ég hef reynt að biðja hann um ráð um hvert ég geti leitað frekar samhliða sjúkraþjálfun en fæ engin og hann virðist ekki hafa neinn áhuga á því að ráðfæra sig við collega sína sem gætu e.t.v. haft meira vit á hlutunum. Klórar sér bara í hausnum og ypptir öxlum yfir því af hverju ég lagast ekki. Ég er búin að fara í göngugreiningu og fékk þar innlegg undir annan hælinn vegna mislangra fóta (hjálpar ekki, fæ bara líka verk hinummeginn í mjöðmina) hef farið til hnykklæknis í 15 skipti og farið reglulega í sjúkranudd samhliða þessu, ég fékk einnig nýlega stuðningsbelti sem hjálpar mér aðeins við mikið álag en ég en ég er enn slæm af verkjum sem ætla mig alveg lifandi að drepa á stundum, mér finnst verkirnir lítið hafa lagast og versna ennþá við mikið álag eða of langar setur. Ég reyni að hreyfa mig eins og ég get og stunda léttar styrktaræfingar sem mér voru kenndar í sjúkraþjálfun en þá á ég alltaf bágt með gang daginn eftir. Ég er 164 cm á hæð og 52 kg svo ekki er það þyngdin sem er að há mér.

Ég tel mig alls ekki hafa fengið nógu góða þjónustu hjá sjúkraþjálfurunum (því miður) og ég finn engan sem virðist geta haldið utan um mín mál og ráðlagt mér. Kannski eru menn hræddir við mig af því ég er heilbrigðisstarfsmaður???? Eins og sjá má er ég búin að prófa fjölmargt af eigin frumkvæði en ekki fyrir atbeina annarra. Ég er nú orðin vonlítil um að geta snúið aftur til starfa í bráð og þá er ég í náttúrulega í slæmum málum því ég er búin að eyða miklum fjármunum í að reyna að ná fyrri heilsu síðasta árið. Ég ætlaði að skrifa bréf til félags áhugafólks um grindarlos (FAG) í netfang sem er gefið upp í link frá ykkur og fá ráðleggingar en það virkar ekki og ekkert hefur gerst á heimasíðu þeirra síðan snemma 1999.

Mig vantar hjálp.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það hryggir mig hversu svört mynd er dregin upp af kollegum mínum. Grundvallarregla í okkar starfi er að taka góða sjúkrasögu, gera ítarlega skoðun eftir okkar bestu getu, setja upp markmið meðferðar og gera meðferðarplan í framhaldi af skoðuninni. Hins vegar þýðir það ekki að meðferðin þurfi alltaf að leiða til árangurs, því miður. Við reynum þá að breyta um meðferðaraðferðir til að sjá hvort aðrar aðferðir henti betur. Ég geri ráð fyrir að sjúkraþjálfarinn sem þú fórst til í seinna skiptið hafi gert þetta þar sem þú talar um að þú hafir nú fengið greiningu skv. skoðun og að hann hafi reynt að rétta skekkjuna.

Þú talar um að innlegg hafi gert ástandið jafnvel verra. Mér dettur helst í hug að þú sért því alls ekki með fótalengdarmismun, heldur skekkju í mjaðmargrindinni sem getur virst í fyrstu vera mismunur á fótalengd. Það þarf að gera nokkur próf til að greina þarna á milli. Ef eingöngu er um mjaðmargrindarskekkju að ræða hjálpar ekki að setja hælplötu undir skóinn, heldur verður að reyna að hreyfa mjúklega til í mjaðmargrindinni til að leiðrétta skekkjuna.

Þegar um grindargliðnun er að ræða hefur átt sér stað hálfgerð tognun á liðböndum í spjaldliðunum og / eða lífbeini. Konan þarf að læra inn á sjálfa sig hversu mikið hún getur hreyft sig án þess að kalla fram verki. Það er einmitt dæmigert fyrir liðbandaverki að verkirnir koma oftast eftir álagið en ekki endilega meðan á hreyfingunni stendur.

Að nota stuðningsbelti í fyrirbyggjandi skyni eða ef þú ert komin með verki er af hinu góða. Sama má segja um létta hreyfingu og styrktaræfingar eins og þú hefur verið a&
eth; gera. Hins vegar má búast við að álagið hafi verið of mikið fyrst þú finnur alltaf fyrir einkennum daginn eftir. Einnig er hugsanlegt að það þyrfti að endurskoða æfingarnar hjá þér.

Þú talar um að sjúkraþjálfararnir hafi e.t.v. verið hræddir við annan heilbrigðisstarfsmann. Ég á bágt með að trúa því. Hins vegar veist þú jafnvel og ég að þá fáum við oftast fleiri gagnrýnar spurningar á okkur og meiri vangaveltur um meðferð, sem ég tel bara vera af hinu góða. Oft hefur verið gert grín af því á sjúkrahúsum að alltaf þurfi að koma upp einhverjir fylgikvillar þegar sjúklingurinn er heilbrigðisstarfsmaður.

Þú vitnar í bæklinginn um grindarlos sem var gefinn út 1998 af sjúkraþjálfurum sem hafa unnið mikið með þetta vandamál. Bæklingurinn hefur nýlega verið endurútgefinn, en þá hefur einmitt verið kippt út upplýsingum um FAG (félag áhugafólks um grindarlos) þar sem starfsemi þess hóps virðist hafa lagst niður.

Þú virðist hafa reynt flest. Þér er frjálst að sækja sjúkraþjálfun hvar sem er, bæði skipta um sjúkraþjálfara eða sjúkraþjálfunarstofu. Þegar þú hefur valið þér stað er sjálfsagt að þú biðjir um þjálfara sem hefur reynslu af meðferð við grindarlosi. Engin trygging er þó fyrir því að þú náir meiri bata þar en hjá þeim þjálfara sem þú ert hjá núna. Við vitum að það getur tekið tíma að ná sér í grindinni eftir fæðingu. Meiri hluti þeirra kvenna sem hafa haft grindarlos á meðgöngu ná sér á fyrstu 6 mánuðunum eftir fæðingu. Því miður er ákveðinn hópur sem finnur áfram fyrir einkennum í mjaðmargrindinni við ákveðnar daglegar athafnir svo sem við göngu (einkum stigagöngu), gólfþrif og langar setur svo eitthvað sé nefnt. Ekki er óalgengt að þær finni fyrir auknum óþægindum í tengslum við blæðingar. Mörgum þessara kvenna heldur samt áfram að batna smátt og smátt með því að stunda rétta þjálfun og líkamsbeitingu. Þetta krefst mikillar þolinmæði, en fyrst og fremst þarf maður að öðlast þekkingu á eigin takmörkunum.

Ekki gefast upp – þú ert vonandi í þeim hópi sem nærð bata með tímanum.
Gangi þér vel.

Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari.