Gulur litur á svita

Hallo maður minn svitnar mikið á næturnar og rúmföt og dýna verður sterk gult á litinn hvað getur hann gert? Eru einhver ráð ?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Óeðlilega mikil svitamyndun (hyperhydrosis) getur átt sér þekktar orsakir eða verið af óþekktum uppruna. Þekktar orsakir fyrir mikilli svitamyndun eru oft læknanlegar að einhverju marki og getur þar til dæmis verið um að ræða ofstarfsemi skjaldkirtils, hormónameðferð, offitu, sykursýki, tíðahvörf ofl.

Þegar ekki finnst nein sérstök orsök er oft um að ræða ættgengan kvilla sem gjarnan byrjar á barns- eða unglingsárum og fylgir viðkomandi einstaklingi alla ævi. Sumir þessara einstaklinga svitna óeðlilega mikið allan sólarhringinn en aðrir við minnstu áreynslu, hækkun á lofthita, sótthita, kvíða eða mikið kryddaðan mat. Oft fylgir þessu roði í húð, einkum í andliti og á hálsi.

Sviti er vökvi sem myndast í svitakirtlum í húð okkar. Hann er að mestu leyti vatn en einnig eru uppleyst í honum ýmis sölt og mismikið af úrgangsefnum. En eitt af meginhlutverkum hans er að stjórna líkamshita og losun úrgangsefna (sem litar svitann).

Fyrstu ráð væru að hafa gott loftflæði í svefnherberginu, ekki sofa í náttfötum úr gerviefni, auka inntöku á vatni og fara í sturtu fyrir svefninn.

Svari þetta ekki spurningu þinni mæli ég með að leita til læknis til að fá frekari ráð og upplýsingar.

Gangi þér vel

Lára Kristín

Hjúkrunarfræðingur