Spurning:
Ég hef eina spurningu varðandi meðgöngu og fæðingu. Ég geng nú með mitt þriðja barn og á von á mér á hverri stundu. Í útvíkkunarhríðum með fyrsta barn hreinsuðust þarmar hjá mér í fyrstu hríðum en ekki í seinni fæðingunni. Þá hreinsaðist úr þörmunum í rembingshríðum. Ég var að spá í hvort það væri óhætt að taka microlax eða eitthvað annað slíkt til að hreinsa út áður en í sjálfa fæðinguna er komið (ég veit þetta hljómar teprulega en ég er nú einu sinni alveg heilmikil tepra).
Með þökk
Svar:
Hægðalosun í fæðingu er afskaplega algengur og eðlilegur hlutur og orsakast af því að kollur barnsins þrýstir saman ristlinum og endaþarminum þegar hann gengur gegn um grindina. Þetta finnst þó mörgum konum afskaplega hvimleitt og biðja margar hverjar um úthreinsun þegar þær koma á fæðingadeildina. Það er yfirleitt alveg sjálfsagt ef útvíkkun er ekki orðin þeim mun meiri. Þér er líka alveg óhætt að hreinsa þig sjálf en ég mæli frekar með Fosfat Klysma þar sem það er ekki eins ertandi og Microlax. Notaðu það þá helst strax í byrjun fæðingar því það getur virkað örvandi á hríðarnar og ef þú ætlar ekki að fæða heima er vissara að fara varlega 😉
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir