Hægðavandamál barns

Fyrirspurn:

Varðandi 3ja ára son minn. Hefur alltaf þurft að hafa mikið fyrir því að losa hægðir, þegar hann var yngri (1-2ja ára) grét hann þegar hann kúkaði og oft kom bara litið sparð. Nú kúkar hann ca 1x víku og það getur tekið hann 3 daga að losa alveg. Oftast er þetta alveg eðlilegur saur en stundum frekar þurr og "klemmdur". Heimilislæknir ráðlagði okkur sorbitol en það hefur engu breytt. Í verstu tilvikunum þegar hann er búinn að rembast í langan tíma og útgrátinn set ég microlax upp og þá loksins kemur eh en stundum jafnvel ekkert. Hvað er til ráða? Hann borðar hollt og töluvert af fersku grænmeti og fjölbreytt. Á ég að reyna að láta fylgja honum sérstakan vatnsbrúsa í leikskólann til að tryggja vatnsinntöku?

Aldur:
38

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl vertu,

Þetta vandamál er ótrúlega algengt hjá börnum og getur orðið að vítahring sem erfitt er að leysa. Þú ert greinilega meðvituð um að trefjaríkt fæði og nægur vökvi er mikilvægt í þessu ferli en stundum dugar það ekki fyrr en búið er að ná starfssemi ristilsins í betra form.
Það að drengurinn hafi hægðir einu sinni í viku er alls ekki nóg og staðan hljómar þannig að sorbitol eitt og sér  dugar ekki til. Það eru til fleiri lyf sem þú getur fengið til að mýkja hægðirnar hjá drengnum þínum og það ásamt reglulegum salernisferðum er lykillinn að því að leysa þennan vanda.
Ég mæli með því að þú farir með drenginn til meltingarséfræðings barna og látir ganga úr skugga um að ekkert sé undirliggjandi að í meltingarfærunum sem geti orsakað þennan vanda. Það er afar sjaldgæft að svo sé. Þegar það er komið á hreint getur hann skrifað uppá sterkari hægðalosandi og mýkjandi lyf Því oftast er talsvert magn af uppsöfnuðum hægðum í ristlinum sem þarf að hreinsa út. Að því loknu getur hann ráðlagt þér með framhaldið.
Ristillinn getur verið nokkra mánuði að jafna sig og komast í eðlilegt horf en það tekst nú með þolinmæði að fá þetta í lag og það er alveg þess virði því þessi vandi leysist sjaldan af sjálfu sér.

Vonandi kemur þetta ykkur að gagni og gangi ykkur vel,

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur