Hár blóðþrýstingur – á 14. viku

Spurning:
Málið er að ég er komin 14 vikur á leið og var að greinast með of háann blóðþrýsting 140/97, er það ekki alveg á hættumörkum? Hvað get ég gert til að halda honum niðri ,þá með hvernig matarræði. Ég fer í göngutúra og stundum í sund má ég það ekki alveg áfram? Ef ég verð sett á lyf er það þá ekki bara tímabundið þetta ætti að lagast eftir meðgöngu? Ég fékk meðgöngueitrun með fyrri barnið er þá eins víst að ég fái hana aftur núna? Ég varð svo sjokkeruð þegar mér var sagt þetta að ég spurði einskins og var ekkert sagt.
Kærar þakkir fyrir frábæra síðu (",)

Svar:
Það er dálítið hátt að vera með blóðþrýsting upp á 140/97 í upphafi meðgöngu og líklegt að þú hafir verið með háþrýsting áður en meðgangan hófst. Það er óvíst að þú fáir meðgöngueitrun á þessari meðgöngu en þó er aukin hætta á því þar sem þú fékkst hana síðast og ert að auki nú þegar með hækkaðan blóðþrýsting. Þú verður nú sjálfsagt ekki sett á lyf strax en ef blóðþrýstingurinn hækkar upp fyrir 105 í neðri mörkum eða þú ferð að fá önnur einkenni, eins og prótein í þvagi eða vaxandi bjúg, verður það væntanlega endurskoðað. Allavega þarf að fylgjast vel með þér á meðgöngunni og þótt blóðþrýstingurinn lækki venjulega fljótlega eftir fæðingu eru konur sem hafa fengið meðgöngueitrun í aukinni hættu á að fá síðar háþrýsting svo þú skalt áfram láta fylgjast með þér þegar meðgöngunni lýkur.

Varðandi mataræði og annað sem hugsanlega hefur áhrif á blóðþrýstinginn þá er almennt talið að próteinrík fæða sé til bóta, sem og að hreyfa sig hæfilega og halda sér í góðu formi. Það er einnig talið gott að halda sykurneyslu og aukalegu salti í lágmarki, sleppa koffíndrykkjum, borða mikið grænmeti og drekka helst vatn við þorsta. Góð hreyfing á meðgöngu er t.d. að ganga og hjóla en þó telja flestir að sund sé allra best þar líkaminn er léttari í vatni og allar hreyfingar því auðveldari og að auki dregur dvöl í vatni úr bjúg og getur lækkað blóðþrýsting.

Vona að þetta gangi vel hjá þér.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir