Háreyðingarkrem á meðgöngu?

Spurning:

Sæl Dagný.
Ég er 20 ára og komin 10 vikur á leið og var að velta því fyrir mér hvort það væri í lagi að nota háreyðingarkrem. Ég hef lesið hér á vefnum að það sé ekki æskilegt fyrstu vikurnar að lita á sér hárið vegna eiturefna sem gætu skaðað fóstrið, en hvað með háreyðingarkrem? Er ekki helling af skaðlegum efnum í því líka? Takk fyrir frábæran vef!

Svar:

Sæl.

Það er skynsamlegt að fara varlega í notkun allra efna sem ekki er fyllilega vitað hvaða áhrif hafa á fósturþroska. Ekki hef ég getað fundið neitt haldbært sem mælir á móti notkun háreyðingarkrems á meðgöngu en til að vera viss er skynsamlegt að sleppa sem mest notkun eiturefna á meðgöngu og þá sérstaklega fyrstu þrem mánuðum meðgöngu meðan fóstrið er í mótun.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir