Hætt að reykja og þyngist?

Spurning:
Er þetta eðlileg þyngdaraukning eða getur verið önnur ástæða?
Ég er 25 ára kvenmaður og er nýhætt að reykja, nánar tiltekið fyrir rúmum 3 vikum, og er búin að þyngjast um 3,5 kíló á þeim tíma. Ég hef reykt síðan ég var 17 ára og á eitt barn sem er 5 ára. Ég hef passað mig mikið með mataræðið, drukkið mikið vatn og passað mig á að frekar segja NEI við sætmeti heldur en já sem fyrr. Ég hef oft hætt að reykja því ég veit tað er óhollt, hef hætt í allt frá viku til 2 mánuði en alltaf byrjað aftur því ég hef fitnað, og svo hefur mig langað í smók, það skal samt segjast að ég reyki ekki meira en pakka á dag vanalega ca. 10-15! En í þetta skiptið hætti ég, því mig allt í einu einfaldlega langaði ekki að reykja lengur, og finnst það bara ógeðslegt, þoli hvorki bragðið né lyktina, finnst bragðið slæmt en lyktin hreinasti viðbjóður. En sem sagt þá skil ég ekki þessa rosalegu þyngdaraukningu, og vil ekki fitna. Ég var 93 kg fyrir 6 árum síðan, komst niður í 68 kg á 3 árum með breyttu mataræði og smá hreyfingu, og ætla ALDREI í þá áttina aftur, núna er ég sem sagt 70,5 kg (og 170cm á hæð) Þetta getur ekki verid eðlilegt!

Svar:
Sæl 25 ára – kona!

Ég vil byrja á að óska þér til hamingju með að vera hætt að reykja. Mér finnst árangur þinn við að ná kjörþyngd frábær, að léttast um 25 kíló á 3 árum. Ég er sammála þér að það er til vinnandi að viðhalda þeim árangri. Það að vera vakandi yfir heilsu sinni og setja sér markmið er af hinu góða.

Á upptalningu þinni sýnist mér að þú notir ýmis ráð sem ég þekki til að léttast og það er rétt að offita getur ógnað heilsunni. Nikótínið hefur margvísleg áhrif í líkamanum, það dregur meðal annars úr hungurtilfinningu með framleiðslu á streituhormónum. Reykingafólk er því stöðugt stressað þó flestir séu ekki meðvitaðir um það. Vitað er að streita eykur hraða efnaskipta, því aukast líkur á þyngdaraukningu þegar fólk hættir að nota nikótín. Efnaskiptahraðinn er 10% meiri hjá þeim sem nota níkótín, eða sem gæti samsvarað 200 hitaeiningum á dag.

Því er rökrétt að ætla að fólk þyngist við það að hætta að reykja. Rannsóknir hafa leitt í ljós að meðalþyngdaraukning hjá þeim sem hætta að reykja er um það bil þrjú til fimm kíló eftir fyrsta reyklausa árið. Með aukinni hreyfingu má brenna þessum umfram hitaeiningum og breyta þeim í vöðva. Hreyfing örvar efnaskipti líkamans á svipaðan hátt og nikótín, segja má að hreyfing sé náttúrulegsta og eðlilegsta leið mannsins til að auka hraða efnaskiptanna. Hreyfing eykur niðurbrot á fitu og sykur flyst út í blóðið, við þetta minnkar hungurtilfinning. Það er upplagt að hreyfa sig þegar maður er svangur, ótrúlegt en satt þá gerir hreyfingin það að verkum að þér finnst þú södd á eftir.

Hreyfing skapar líkamlega vellíðan, bætir svefn og minnkar líkur á vöðvabólgum. Hreyfing hefur það fram yfir nikótín hvað þessi áhrif varðar að hún styrkir hjarta og æðakerfið, en nikótínið gerir æðarnar stífar og eyðileggur þær með tímanum. Við það safnast frekar fita og kalk innan á æðarnar sem veldur kransæðastíflu eða æðaþrengslum í útlimum og víðar.

Það er að mínu mati afar mikilvægt að hver og einn finni það form hreyfingar sem hentar best og vekur ánægju. Til að hreyfing beri árangur er gott að miða við 40-60 mínútna rösklega göngu, sund, hjóla, golf, líkamsrækt, að lágmarki þrisvar sinnum í viku.

Jafnframt verður að hafa í huga að borða allar máltíðir og ekkert milli mála. Það er mikilvægt að hafa jafnvægi milli næringar, hreyfingar og hvíldar. Þú segist drekka mikið af vatni, aukin vökvainntekt hjálpar líkamanum að losa sig við eiturefnin sem hafa hlaðist upp í tengslum við reykingarnar. Vatn dregur úr hungurtilfinningu, það að drekka eitt glas af vatni fyrir máltíð gerir að verkum að þú borðar ekki eins mikið.

Einstaklingur sem er í reglubundinni hreyfingu verður að fá 1500 hitaeiningar á dag, ef þær eru einungis um 1000-1200 þá heldur líkaminn að hungursneyð sé ríkjandi og heldur í alla fitu í líkamanum og gengur á forða vöðvanna í stað fitunnar. Þess vegna er ekki ráðlegt að sleppa úr máltíð, frekar að örva brennsluna með því að borða oft en lítið í einu.

Ég myndi ráðleggja þér að fara til næringarfræðings og fá hann til að fara yfir með þér hvort þú sért að borða rétt. Það er hugsanlegt að eftir að þú fórst að hreyfa þig meira eftir að þú hættir að reykja, að vöðvamassinn sé farinn að aukast, vöðvar eru nefnilega mun þyngri en fita. Flestir sem byrja að æfa reglulega upplifa þyngdaraukningu til að byrja með, síðan kemur að því í æfingarferlinu að kílóin hverfa aftur.

Að ofangreindu má því segja að þú þurfir að halda áfram að auka hreyfingu, ég er ánægð með að þú drekkur vel af vatni, borðaðu einungis á ákve&eth
;num tímum, æskilegt að hafa máltíðir litlar í hvert sinn e.t.v. sex sinnum á dag. Eitt sinn sagði næringarfræðingur við mig eitthvað á þessa leið: ,,það þarf vissa hugarfarsbreytingu til að halda markmiði sínu þegar maður hefur léttst, það er til góðs að hugsa, ef ég leyfi mér að borða t.d. sætindi þá verð ég að hreyfa mig aukalega í staðinn.”

Það er nefnilega svo mikill sannleikur fólginn í því að við erum það sem við borðum!

Þú hefur náð markmiðum með því að léttast um 25 kíló og með því að hætta að reykja.

Bæði markmiðin þín miða að því að bæta heilsuna og auka lífsgæðin.

 

Gangi þér vel, kveðja

Sigríður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur

Ráðgjöf í reykbindindi s: 8006030