Hætt að reykja og vil ekki fitna

Spurning:

Sæl Ágústa,

Ég er nýhætt að reykja og er þegar byrjuð að fitna uppúr öllu valdi. Fyrir nokkrum árum gaf ég reykingar upp á bátinn og þyngdist um 10 kg. á 7 mánuðum. Þá féll ég og hóf að reykja aftur og hægt og rólega fór ég í mína kjörþyngd aftur.

Ég hef lesið töluvert um reykingar á Doktor.is og skilst að fólk sem reykir brenni hitaeiningum 10% hraðar. Því er það ljóst að ekki virðist nægja að halda sama striki varðandi fæði þegar hætt er að reykja skv. þessu. þ.e. lögmálið virðist vera að þeir sem hætta að reykja,- fitna.

Ég er ekki feit en á að til að vera mjúk og allt sest þetta á magann og brjóstin. Og nú horfi ég á þetta gerast í annað sinn. Ég fitna með degi hverjum þrátt fyrir að ég sé meðvituð um að borða ekki of mikið.

Tíma mínum er þannig háttað að mér reynist næsta ógjörlegt að komast reglulega í leikfimi. Ég vinn við skrifborð mest allan daginn og eftir vinnu þarf ég iðulega að hraða mér heim til barnanna minna sem bíða eftir mér. Þá tekur við matargerð, heimavinna með börnunum og síðan koma þeim í rúmið. Ég skil ekki hvernig nútíma einstæðum mæðrum tekst að eyða nokkrum klst. í viku í heilsurækt. Því langar mig til að spyrja hvað manneskja eins og ég,- sem hef akkúrat engan tíma til að sinna reglulegri heilsurækt – geti gert til koma í veg fyrir það að fitna þegar ég gef reykingar upp á bátinn?

með fyrirfram þökk, H

Svar:

Sæl H

Til hamingju með að vera hætt að reykja. Reykingar eru mjög skaðlegar heilsunni og betra að vera með nokkur aukakíló utan á sér en að skaða heilsu sína með reykingum. En þú getur auðveldlega, með góðum vilja og skipulagi verið reyklaus og í fínu formi. Þó svo að reykingar auki brennslu líkamans að einhverju leyti er það oftast ekki eina skýringin á því að fólk fitnar mikið eftir að það hættir að reykja. Líklegri skýring er að það borðar meira en þegar það reykti því í stað þess að reykja sígarettu leitar fólk í sælgæti, kex og annars konar snarl.

Til að halda okkur í kjörþyngd þurfum við að huga að því að hreyfa okkur reglulega og gæta þess að neysluvenjur okkar séu á skynsamlegum nótum. Þú þarft líklega að gera einhverjar smávægilegar breytingar á þínum lífsstíl til að komast aftur í kjörþyngd og vera áfram reyklaus. Vertu viss, það er vel þess virði og þér líður í kjölfarið mun betur og hefur meiri orku.

Finndu þér tíma til að hreyfa þig. Geturðu e.t.v. vaknað klukkutíma fyrr og farið út að ganga eða keypt þér myndbandsspólu með æfingum og stundað þær á morgnana áður en börnin vakna eða á kvöldin eftir að þau fara að sofa. Geturðu kannski notað hádegishlé þitt í vinnunni til að fara út í röskan göngutúr? Ég get fullvissað þig um það að það eru ótal margar nútímamæður sem finna sér tíma fyrir líkamsrækt (líka þær einstæðu). Þessir 3-4 klukkutímar sem þú eyðir í hreyfingu á viku skila sér til baka í auknu þreki, betra sjálfstrausti, bættri heilsu og jafnvel betra skapi!

Öll hreyfing skiptir máli, gakktu upp stiga í stað þess að taka lyftu. Leggðu bílnum þínum langt frá vinnustað og gakktu smá spöl. Farðu út með börnunum og leiktu við þau, í eltingaleik, gönguferð, hjólaferð o.s.frv.

Neysluvenjur þínar þarftu líka að skoða. Meðal brennsla kvenna er 1800- 2000 hitaeiningar á dag. Það er fljótt að safnast upp í 2000 og vel það ef þú borðar mikið af sætindum, kökum, kexi, gosdrykkjum og öðru slíku. Minnkaðu fituneyslu og drekktu mikið vatn.

Það er alltaf svolítið átak að gera breytingar á venjum sínum en breytingar sem stuðla að bættri heilsu og betri líðan er vel þess virði að leggja á sig og ávinningar láta ekki á sér standa. Gefðu þér tíma og ekki gefast upp. En láttu reykingarnar alveg eiga sig. Mundu alltaf að það er betra að vera svolítið mjúkur en að skaða heilsuna með reykingum.

Gangi þér vel

Kveðja,
Ágústa Johnson