Hætta að reykja komin 6 mánuði?

Spurning:
Sæl. Þar sem ég reyki og er komin um 6 mánuði á leið og langar að hætta, getur það verið sjokk fyrir barnið eða hvað er best að gera? Ég veit að reykingar eru mjög skaðlegar en er allt í góðu að hætta strax?

Svar:

Sæl og gott að þú skulir vera tilbúin til að leita þér hjálpar. Það er nefnilega líka erfitt að hætta að reykja þegar maður er óléttur.

Þú veist örugglega allt um það hversu skaðlegt það er fyrir barnið að þú skulir reykja, en til þess að þetta takist hjá þér þarftu að vilja hætta að reykja líka fyrir þig sjálfa!

Þú getur fengið fráhvarfseinkenni þegar þú hættir að reykja, en það fer að sjálfsögðu eftir hversu mikið þú reykir. Við ráðleggjum fólki að undirbúa sig vel áður en það hættir. Þegar þú ert í þessu ástandi er ágætt að reyna að minnka reykingarnar markvisst í 2-3 vikur og hætta svo alveg. Það er ekki talið hættulegt fyrir barnið að þú hættir alveg á skömmum tíma. Mikilvægt er að þú takist á við vanann á þessum undirbúningstíma t.d. með að búa til reyklaus svæði, brjóta upp reykingamynstrið og byggja þig upp andlega. Æfðu þig í að ímynda þér framtíð þína og barnsins þíns án reyksins, frjáls. Gott er að drekka mikið af vatni og hreyfa þig. Settu þér svo ákveðinn dag sem þú ætlar að hætta alveg. Gott er að láta þína nánustu vita til að fá stuðning þeirra. Þiggðu alla hjálp sem þú getur fengið og mundu að óþægindin sem fylgja því að hætta að reykja munu ganga yfir. Endilega hafðu samband við okkur í reyksímanum 8006030, ef þú vilt fá frekari stuðning, hvatningu eða ráðgjöf.

Gangi þér vel!

Kveðja Guðrún Árný Guðmundsdóttir

Hj.fr. og ráðgjafi

Ráðgjöf í reykbindindi – 8006030