Hættur að reykja, en hef enn lítið úthald

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er 27 ára gamall. Ég reykti í níu ár, 1991-2000. Ég hætti að reykja 29. maí 2000 og hef ekki snert tóbak síðan, í rúma 19 mánuði. Þremur mánuðum eftir að ég hætti að reykja, í september 2000, hóf ég að æfa karate og hef æft þrisvar í viku síðan en íþróttin reynir mjög á úthald og þol. Úthaldið batnaði geysilega við að hætta að reykja, áður gat ég ekki gengið upp stiga án þess að mæðast en það var gjörbreytt í lok ársins 2000.

Fljótlega hægði á þessari þróun og núna, í ársbyrjun 2002, finnst mér úthaldið óvenjulítið miðað við hve mikið ég hef æft. Mig langar að vita hvort reykingarnar hafi hugsanlega valdið einhverjum varanlegum lungnaskaða og hvort hugsanlegt er að ég geti ekki bætt úthald mitt, sama hvað ég geri. Enn fremur fýsir mig að vita hvort hægt er að framkvæma einhver próf eða mælingar til að kanna ástand lungna og úthald yfirleitt og þá hvað slíkt kosti.

Með þakklæti.

Svar:

Komdu sæll.

Gaman að heyra hvað þér hefur gengið vel að hætta. Til hamingju með það.

Ég get því miður ekki svarað því hvort reykingarnar hafa valdið einhverjum varanlegum skaða. Það er erfitt að meta heilsu eða líkamlegt ástand í gegnum síma/tölvu.

Ég ráðlegg þér því að leita til þíns heimilislæknis eða á næstu heilsugæslustöð. Á heilsugæslustöðvum er hægt að fá mælt þan lungna (öndunarmælingar), gera áreynslupróf og einnig getur þú farið í þrekmælingar á næstu líkamsræktarstöð.

Hvað kostnað varðar, er það breytilegt milli heilsugæslustöðva og treysti ég mér því ekki til að gefa þér neina tölu í því sambandi.

Ég óska þér svo góðs gengis í framtíðinni.

Helena Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í reykbindindi – grænt númer 800-6030.