Hef góða sjón, en allt í einu fór allt úr fókus

Spurning:

Sæll.

Ég er 32 ára og hef alltaf verið með mjög góða sjón. En undanfarnar tvær vikur hefur þrisvar komið fyrir að ég sé svo illa (allt úr fókus) að ég hef ekki getað lesið t.d letur í fréttablöðum, alveg sama hvað ég rýni og píri augun.

Afi minn var með Gláku og var blindur hátt í 40 ár, og mikið er um gleraugnanotkun í ættinni. Það sem að mér finnst mest skrýtið er að þetta gerðist bara á örskotsstundu (1 mín eða svo) og stóð yfir í ca. 1 klst og svo var það búið, en þetta hefur gerst þrisvar.

Er þetta eðlilegt eða ætti ég að leita til augnlæknis?

Með fyrirfram þökkum um svör.

Svar:

Komdu sæl/sæll.

Mér finnst nokkuð líklegt að þú getir verið að upplifa svokallaðan „nærstillingarvanda“ í fyrsta sinn – en ekki síðasta! Þú ert að vísu nokkuð ung að þurfa á lesgleraugum að halda – en fólk sem er svolítið fjarsýnt fyrir fer stundum að þurfa á lesgleraugum/hvíldargleraugum að halda einmitt um þetta leyti. Eins þarf að útiloka sjónskekkju, sem getur lýst sér með augnþreytu. Gláka lýsir sér ekki á þennan hátt og þetta hljómar ekki eins og neinir aðrir alvarlegir augnsjúkdómar sem ég þekki. Mígreni lýsir sér einstöku sinnum á þennan hátt (getur verið án höfuðverkjar!)en þó er þetta ekki dæmigert birtingarform þess. Endilega láttu augnlækni kíkja á þig og meta þig með tilliti til þess hvort þú þurfir á hvíldargleraugum að halda.

Bestu kveðjur til þín og gangi þér allt í haginn,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf