Hefur minipillan áhrif á andlega líðan?

Spurning:

Halló.
Ég er með barn á brjósti og tek minipilluna (Norethisteron). Getur pillan haft áhrif á andlega líðan manns? Ég hef fundið fyrir depurð og vanlíðan eftir að ég byrjaði að taka pilluna, sem ég fann ekki fyrir áður. Ég byrjaði á minipillunni u.þ.b. 9 vikum eftir fæðinguna.

Með von um svar.

Svar:

Sæl.

Það er þekkt fyrirbæri að konur geta fundið fyrir geðsveiflum (oftast talað um það sem skapvonsku) við að taka pilluna. Ef þú tengir þessa depurð við tímann sem þú byrjaðir á pillunni er ekki ólíklegt að hún eigi sök á vandamálinu. En á hinn bóginn gæti hér verið um að ræða fæðingarþunglyndi sem byrjar oft nokkrum vikum eftir fæðingu. Hvor sem orsökin er ættirðu að ræða við lækninn þinn og sjá hvort ekki er hægt að skipta um pillutegund eða ráða bót á vanlíðan þinni með einhverjum hætti.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir