Hefur Primlut skaðleg áhrif á fóstur?

Spurning:

Kæri Arnar.

Mig langaði að vita hvort ég gæti ekki fengið smá upplýsingar hjá þér.

Þannig er mál með vexti að ég og maðurinn minn erum búin að reyna að eiga barn í tæp tvö ár og það hefur ekki gengið hingað til. Ég hef alltaf verið á óreglulegum blæðingum og fer stundum ekkert á blæðingar svo mánuðum skiptir. Ég fór því til kvensjúkdómalæknis míns og hann útvegaði mér töflur sem heita primlut og hann sagði að þær ættu að koma blæðingunum af stað, að auki lét hann mig fá frjósemislyf (Pergotime) sem ég átti svo að taka. Þegar ég var búin að taka fjórar töflur af Primlut þá ákvað ég að framkæma þungunarpróf vegna þess að ég er búin að vera aum í brjóstunum í svolítinn tíma, ég er svo sem vön því svona viku fyrir blæðingar. Ég lenti svo í hörðum árekstri þannig að ég tengdi aumu brjóstin bara við það að nú hlyti ég að vera að byrja á blæðingum eða að ég væri svona aum eftir beltið í bílnum. Þegar ég svo framkvæmi þungunarprófið þá kemur það út jákvætt. Ég framkvæmdi það aftur daginn eftir og það reyndist jákvætt. Það sem mig langaði að vita er hvort að þessar töflur sem ég tók af Primlut hafi nokkur skaðleg áhrif, því það stendur að lyfið skuli ekki tekið á meðgöngutíma og notkun þess skuli hætt um leið og konan verður þunguð. Að auki man ég ekki nákvæmlega hvernær ég fór síðast á blæðingar svo ég veit lítið um hversu langt þetta er gengið. Á ég að leita strax til heimilislæknis eða á ég að bíða í einhvern tíma?

Með fyrirfram þökkum.
Ein áhyggjufull.

Svar:

Sæl.
Ég óska þér til hamingju. Þér hefur tekist að verða þunguð hjálparlaust og það er vel. Þú þarft ekki að óttast þessar fáu Primlut töflur. Pantaðu þér svo bara tíma í mæðraskoðun, en til þess að vera skynsöm þarft að vita að ein og ein kona getur misst fóstur í byrjun. þó við skulum vona að þú sért ekki í þeim flokki.

Gangi þér vel og góða meðgöngu.
Arnar Hauksson dr. Med.