Hefur Ripped fuel skaðleg áhrif á barnið?

Spurning:
Ef kona verður þunguð og hefur tekið inn örfandi efni eins og Ripped fuel (effedrine).

Hefur það skaðleg áhrif á barnið?
Hvað getur gerst fyrir barnið?

Kveðja Ein með áhyggjur

Svar:
Efedrín, sem er eitt af efnunum í Ripped fuel, er í fyrsta lagi flokkað sem lyf og í öðru lagi sem ávana- og fíkniefni á Íslandi. Það þýðir að öll sala, meðhöndlun og notkun þess varðar við lög, nema um sé að ræða lyfseðil frá lækni á viðurkennt lyf. Ástæða þessarar flokkunar er verkun efnisins og ekki síður margar og stórhættulegar aukaverkanir. Af 3308 aukaverkunum sem skráðar voru hjá Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) fyrir fæðubótaefni frá janúar 1993 til febrúar 2001 voru 1398 (42%) vegna efedríns og skyldra efna (ephedrine alkaloids). Þar á meðal var 81 dauðsfall vegna efedríns og skyldra efna. Þess verður því vart langt að bíða að efedrín verði flokkað á sama hátt í Bandaríkjunum, enda er mikill fjöldi málsókna gegn fyrirtækjum sem selja þessar vörur í gangi.

Þegar kemur að hættunni vegna notkunar lyfsins á meðgöngu ber heimildum ekki saman. Almenna reglan er að sjálfsögðu sú að þunguð kona á aldrei að taka inn nein lyf eða fæðubótaefni án þess að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.

Upplýsingar um skaðsemi efedríns á meðgöngu segja allt frá því að ekki sé nein ástæða til að ætla að það valdi fóstri skaða (sænska lyfjaskráin, FASS) að því að segja að rannsóknir á dýrum eða fólki sýni óæskileg áhrif á fóstur eða aukaverkanatilkynningar benda til að að fóstrið sé í hættu (FDA).

Burtséð frá því að ég ráðlegg öllum að forðast alla notkun efedríns vegna aukaverkana, ættu ófrískar konur í engum tilfellum að nota lyfið. Þær sem eru að nota lyfið ættu að hætta því strax. Hætta á áhrifum á fóstur er þó líklega ekki mikil en þó of mikil til þess að réttlæta notkun þess á meðgöngu. Kona sem hefur tekið inn efedrín á meðgöngu ætti að segja lækni frá því við mæðraskoðun og ræða áhættuna.

Finnbpogi Rútur Hálfdanarson,
lyfjafræðingur