Hefur Zoloft áhrif á stinningu og kynkulda?

Spurning:

Góðan daginn.

Mig vantar að vita hvort geðlyfið Zoloft hafi áhrif á stinningu og/eða valdi kynkulda.

Með kveðju.

Svar:

Þetta lyf getur valdið ýmsum truflunum á kynlífi, minni löngun í kynlíf getur komið fram. Ég læt fylgja með aukaverkanakafla úr sérlyfjaskrá fyrir Zoloft. Best er að ræða málið við lækni eða lyfjafræðing og þá geta þeir metið hvort það þurfi að breyta einhverju í lífsstíl þínum eða jafnvel að skipta um lyf.

Ég minni á að aukaverkanir sem koma fram í aukaverkanaköflum í lyfjaskrám eru allar aukaverkanir sem vitað er um. Það geta verið fleiri. Einnig er það þannig að FLESTIR FINNA FYRIR FÆSTUM AF ÞEIM AUKAVERKUNUM SEM ERU TILTEKNAR.

Aukaverkanir Zolofts:
Í fjölskammta rannsóknum á þunglyndi og þráhyggju- áráttusýki voru eftirtaldar aukaverkanir marktækt tíðari hjá þeim sem fengu sertralín en þeim sem fengu lyfleysu: Ósjálfráða taugakerfið: Munnþurrkur og aukin svitamyndun. Miðlæga og útlæga taugakerfið: Sundl og skjálfti. Meltingarfæri: Niðurgangur/vatnskenndar hægðir, meltingartruflanir og ógleði. Geðrænar: Lystarleysi, svefnleysi og svefnhöfgi. Kynfæri: Truflanir á kynlífi (oftast seinkun á sáðláti hjá körlum). Þær aukaverkanir sem voru algengastar í tvíblindum, samanburðarrannsóknum við lyfleysu sem gerðar voru á sjúklingum með þráhyggju- áráttusýki og felmturköst (ofsahræðslu) voru svipaðar þeim sem komu fram hjá sjúklingum með þunglyndi. Upplýsingar sem komið hafa fram eftir að lyfið var sett á markað: Ósjálfráða taugakerfið: Víkkun á ljósopi og standpína (priapism). Almennar: Ofnæmislík einkenni, ofnæmi, þróttleysi, þreyta, hækkaður líkamshiti og hitasteypur. Hjarta og æðakerfi: Verkir fyrir brjósti, háþrýstingur, hjartsláttarónot, bjúgur í kringum augu, yfirlið og óeðlilega hraður hjartsláttur. Miðlæga og útlæga taugakerfið: Dá, rykkjakrampi, höfuðverkur, mígreni, hreyfingartruflanir (þar með talin extrapýramídal einkenni eins og ofhreyfni (hyperkinesia), ofstæling (hypertonia), tönnum er gníst saman eða óeðlilegt göngulag), óeðlilegt húðskyn og minnkað húðskyn. Einnig hefur verið skýrt frá merkjum og einkennum sem tengd eru serótónín heilkenni: Í sumum tilvikum hefur verið um samtímis notkun serótónvirkra lyfja að ræða, þar á meðal hefur verið skýrt frá geðæsingi, rugli, svitnun, niðurgangi, hækkuðum líkamshita, háþrýstingi, stirðleika og óeðlilega hröðum hjartslætti. Innkirtlar: Óeðlileg mjólkurmyndun, aukið prólaktín í blóði og vanstarfsemi skjaldkirtils. Meltingarfæri: Kviðverkir, brisbólga og uppköst. Blóðmyndunarkerfi: Breyting á starfsemi blóðflagna, óeðlilegar blæðingar (svo sem blóðnasir, blæðingar frá meltingarfærum eða blóð í þvagi), hvítfrumnafæð, húðblæðingar og blóðflagnafæð. Breytingar á niðurstöðum mælinga: Óeðlilegar rannsóknaniðurstöður. Lifur/gall: Alvarlegir lifrarsjúkdómar (þar með talin lifrarbólga, gula og lifrarbilun) og hækkun á transamínösum í sermi (SOGT og SGPT) án einkenna. Efnaskipti: Óeðlilega lítið natríummagn í blóði og aukið kólesterólmagn í sermi. Geðrænar: Æsing, árásarhneigð, kvíði, þunglyndiseinkenni, ofskynjanir og geðveiki. Kynfæri: Óreglulegar tíðablæðingar. Öndunarfæri: Berkjukrampi. Húð: Hárlos, ofsabjúgur og útbrot (þar á meðal einstaka tilvik um alvarlega húðflögnun). Nýru/þvagfæri: Bjúgur í andliti. Þvaglátatregða. Annað: Einkenni sem skýrt hefur verið frá þegar notkun sertralíns hefur verið hætt eru meðal annars geðæsing, kvíði, sundl, höfuðverkur, ógleði og óeðlileg húðskynjun.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur