Spurning:
Ég á eina 5 ára gamla dóttir og er farin að hafa miklar áhyggjur af henni. Hún hefur allt frá fæðingu verið mjög ákveðin og má segja að hún hafi tekið allar ákvarðanir sjálf. Þá á ég við að ég fékk hana ekki til að hætta á brjósti, með pela, snuddu eða með bleyju heldur ákvað hún þetta allt sjálf á endanum en það gekk ekkert hjá mér að reyna. Nú er svo komið að hún er afskaplega erfið í samskiptum við okkur foreldrana. Hún hlýðir nánast engu. Hún er orðin mjög orðljót og svo er hún ofbeldisfull, hún reynir að lemja og sparka, bíta og jafnvel henda hlutum í mig. Hlýðir engu strax sem hún á að gera og það er algjör martröð að vekja hana á morgnana. Jafnvel þó búið sé að finna föt á hana kvöldið áður er það allt orðið ómögulegt morguninn eftir og stundum kostar það klukkutíma öskur ( hjá henni ) áður en hún gefur sig og hægt er að koma henni af stað. Í rauninni á þetta alltaf við hvert sem verið er að fara, það er eins og hún vilji ekki fara neitt en svo er kannski allt í lagi þegar komið er af stað. Ég er farin að standa mig að því að vakna upp með kvíða fyrir að vekja hana og forðast að fara eitthvað því þetta tekur mikið á taugarnar hjá mér. Henni gengur ágætlega í samskiptum við aðra krakka en hún verður að fá að stjórna en þau virðast einhvern veginn leyfa henni að komast upp með það og líta upp til hennar en hins vegar hef ég miklar áhyggjur af því að þetta eigi eftir að breytast og krakkar eigi eftir að gefast upp á henni. Hún er sísuðandi og ef henni er gefið eitthvað er það orðið ómögulegt eftir smástund og hún fer þá bara að suða um eitthvað annað. Hún er nýlega farin að sýna mikla afbrýðisemi og ef ég sýni öðrum börnum einhvern áhuga þá segir hún að ég sé alltaf vond við sig en góð við alla aðra, þannig að það liggur við að ég forðist að sýna öðrum krökkum hlýju. Skammir eða refsingar hafa aldrei virkað á hana, hún verður bara helmingi verri svo það er afskaplega lítið notað á hana nema í ítrustu neyð set ég hana inni í herbergi, það er helst að það virki að hunsa hana en mér er mjög illa við að nota svona aðferðir.Ég reyni alltaf að ræða við hana en hún hlustar ekki og fer bara að tala um eitthvað annað.Hún segir mjög oft fyrirgefðu en meinar ekkert með því, er í rauninni bara að kaupa sér frið og mér finnst hún aldrei skammast sín fyrir neitt sem hún gerir. Mér er sagt að henni gangi vel í leikskólanum en það sem háir henni er að hún þolir ekki reglur. Ef hún fær ekki að velja hvað hún gerir er oft hálfur dagurinn ónýtur, hins vegar eru þær sammála mér í því að hún er mjög skýr og lifandi og getur verið mjög gaman að tala við hana ef sá gállinn er á henni. Hins vegar finnst mér ég vera hætt að ná svoleiðis sambandi við hana. Hún getur verið afskaplega hlý og góð og ég hef alltaf sýnt henni mikla ástúð. Segi henni reglulega að ég elski hana og hrósa henni í hvert sinn sem tilefni er til. Hins vegar er ég orðin ofsalega þreytt og veit að ég á orðið mjög erfitt með að halda þolinmæðinni þó ég reyni eins og ég get. Mér finnst ég aldrei eiga orðið tíma með sjálfri mér því það tekur hálft kvöldið að fá hana til að sofna og þá er ég gjörsamlega búin að vera og fer yfirleitt að sofa líka. Hvað getur verið að hrjá barnið mitt og hvert er best fyrir mig að leita hjálpar fyrir hana? Vona að þetta bréf gefi einhverja mynd af ástandinu svo hægt sé að svara mér. Kærar þakkir.
Svar:
Sæl.
Það er best fyrir þig að ræða við starfsmenn leikskólans. Þar er hægt að sækja um aðstoð sálfræðings en ferlið er misjafnt eftir því hvar þið búið. Ef þú ert í Grafarvoginum þá ferð það til Miðgarðs en annarsstaðar í Reykjavík fer það til sálfræðideildar Leikskóla Reykjavíkur. Það sem sálfræðingurinn gerir er að greina vandamál dóttur þinnar, m.a. með því að útiloka orsakir og síðan finna leiðir til að aðstoða ykkur við að halda aga. Líklegast er að dóttur þinni sé veitt of mikið svigrúm til að stjórna. Til eru hagnýtar aðferðir til að vinna á þessari neikvæðu hegðun og fyrirbyggja suð, afbrýðisemi, reiðiköst, "klukkutíma öskur" og það hve langan tíma það tekur að koma henni í háttinn. Í grundvallaratriðum ganga þessar aðferðir út á að hunsa neikvæða hegðun t.d. suð og styrkja jákvæða hegðun (ekki suð). Ef við tökum dæmi með þegar hún suðar um eitthvað dót, þá á að hunsa hana (taka ekki eftir henni) og fljótlega eftir að hún er hætt þá á að hrósa henni fyrir það. Flestir foreldrar sem eru í svipuðum aðstæðum og þú segja þegar þeir koma til sálfræðings að þeir séu búnir að reyna þetta allt, búnir að reyna að hunsa og búnir að hrósa. Það skiptir aftur á móti miklu máli að tímasetning á hrósi sé rétt og það að halda út að hunsa þrátt fyrir að hegðunin versni. Ef við höldum áfram með suð-dæmið þá er reynt að hunsa þessa suð hegðun. Barnið hættir aftur á móti ekki að suða sama hvað foreldrið reyn
ir að hunsa og hunsa. Á endanum er barnið orðið mjög reitt og farið að garga. Hvað gerir foreldrið þá? Margir gefast upp og láta undan á meðan aðrir reiðast og skamma barnið. Hvorugt hefur aftur á móti tilætluð áhrif. Skammirnar eru fljótvirkar en mjög skammvinnar lausnir. Það að láta undan styrkir suð hegðunina og bætir um betur og styrkir einnig reiðihegðunina. Barnið sér að eina leiðin til að foreldrið láti undan er að verða reitt. Suðið dugar ekki lengur. Málið er að halda ró sinni og halda suð hegðunina út. Þegar hún hættir (ef hún hættir) þá á að hrósa fyrir það. Ef hún hættir ekki þá er hægt að nota "time-out", þ.e. setja barnið inn í herbergi þangað til það róar sig niður. Þegar barnið er orðið rólegt þá á að hrósa fyrir það. Þessa aðferð á í grundvallaratriðum að vera hægt að nota á alla hegðun, sama hversu flókin hún virðist. Það þarf aftur á móti að skilgreina og afmarka þá hegðun sem ætlað er að taka á og ekki ætla að bæta alla hegðun alltaf og allsstaðar. Ég mæli með bókum eins og Tígurinn taminn og öðrum bókum um atferlisaðferðir.
Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
s:661-9068