Heilsuátak og millibitar

Fyrirspurn:

Góðan daginn

Ég er að byrja í smá heilsuátaki og á í smá vandræðum með milli máltíðarnar 2 kl 10 og kl 4.

ég hef verið að fá mér ávexti og grænmeti en er alltaf orðin svöng aftur strax svo ég var að velta fyrir mér hvort það væri e-ð vit í að fá mér kannski núpó eða e-ð í þeim dúr svona með í þessum milli máltíðum ??

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Margir nota fæðubótarefni til að fylla upp í máltíðir dagsins en mín skoðun er sú að með fjölbreyttu og góðu mataræði sé ekki þörf á því. Ég mæli frekar með því að þú bætir inn einum millibita þannig að þú sért að borða litla máltíð kl. 10, 15 og 17. Ávextir og grænmeti eru mjög góðir millibitar en fleiri hugmyndir eru að fá sér t.d. hrökkbrauð, flatkökur eða riskex með kotalælu, túnfiski og grænmeti, harðfiskur, fræ og hnetur. Ekki er samt ráðlegt að borða mikið magn af hnetum í einu, 10 -15 stk. í senn. Skyr og skyrdrykkir, ávaxtasafar, þurrkaðir ávextir, döðlur og rúsínur koma líka til greina og svo má fá sér nokkrar saltstangir af og til.

Anna Rósa Magnúsdóttir

hjúkrunarfræðingur