Heimakoma

Fyrirspurn:

Góða kvöldið, nú vantar mig smá upplýsingar frá ykkur. Þannig er mál með vexti að eg hef átt vanda til að fá heimakomu. Yfirleitt hefur fylgt eyrnabólga með þessu veseni ég bólgna upp í andlitinu, á nokkrar myndir af mér því til staðfestingar. Hef alltaf farið bara beint inn á HNE á Borgarspítalanum  en nú bar svo við fyrir viku síðan að ég þurfti að fara á bráðavaktina og beið þar í 3 klst eftir að læknir þar liti á mig. Ég vissi að háls nef og eyrnalæknar þektu mig og þetta einkenni út í gegn svo ég sagði honum það, og var loks send upp á þá deild til vakthafandi læknis, merkilegt nokk ekkert var að eyranu á mér en andlitið hélt áfram að bólgna, fékk ég pensilín sem ég átti að leysa út sem fyrst sem ég og gerði og fór beint í apótek var ég komin með 40 stiga hita og leið hábölvanlega, morguninn eftir leist bóndanum ekkert á mig og ákvað að fara með mig aftur upp á HNE þar sem 2 læknar litu á mig hristu hausinn og létu mig hafa aðra tegund af penisílíni og sögðu að best væri að fara á bráðamottökuna og á  sýkladeild því þar fengi ég rétta meðferð. Minnug allra biðarinnar daginn áður gat ég ekki hugsað mér það svo ég fór aftur í apótek og tók bara tvöfaldan skammt af penisilíni sem ég fékk uppáskrifað í 3 daga og síðan eins og ég átti að gera. Veit vel að þetta er ekki æskilegt en þegar maður er orðin svona vanur sterku penisilíni þ.e hef alltaf verið lögð inn og fengið beint í æð í viku til 10 daga. Málið er þegar svona kemur upp á get ég þá ekki bara haft samband við ykkurí stað þess að fara á bráðamóttökuna? Vona reyndar að ég fái ekki eina ferðina enn þetta er búið að gerast allt of oft. Svo er önnur spurning hvað get ég gert þegar ég er bitin þá bólgna ég svo rosalega upp, bjó út í Namibíu í 5 ár og læknirinn þar sagði þetta vera ofnæmi og fékk ég einhverjar pillur sem ég átti að taka ef ég var bitinn og þær svínvirkuðu, bólgan hvarf og ég var látinn í friði í lengri tíma. Hér var ég bitinn af mýflugum og var öll stokkbólgin á fótunum með einskonar blöðrur ekki falleg sjón og núna loksins 10 dögum seinna er þetta að hverfa.

með fyrirfram þökk.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Við hjá doktor.is erum ekki með læknamóttöku en þú getur bókað tíma í gegnum vefinn okkar og fengið tíma hjá Heilsuvernd sem er staðsett í Holtasmára 1 ( húsi Hjartaverndar rétt hjá Smáralind).

Það er oftast hægt að fá tíma samdægurs – þú færð valmöguleika um tíma þegar þú bókar og þá áttu tímann vísan og þarft ekki að bíða (smelltu á bókað tíma og það leiðir þig áfram). Ég læt líka fylgja tengil á umfjöllun á  doktor.is um Heimakomu

 

Varðandi flugnabit þá virðist það vera svo að þegar líkaminn hefur einu sinni framkallað ofnæmissvar  (eins og til dæmis við flugnabiti) þá man hann það og bregst of sterkt við ef hann kemst aftur í tæri við það (eins og þegar þú ert bitin aftur).

Því er líklegt að þú megir búast við því að líkami þinn bregðist áfram svona sterkt við þegar þú ert bitin. Það eru til lyf sem draga úr bólgusvöruninni og mæli ég með því að þú ræðir þann möguleika við lækni

 

Með bestu kveðjum

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur