Hella fyrir eyrum

Ég er með hellu fyrir báðum eyrum, byrjaði með gulleitum vökva í hægra eyra og síðan í báðum eyrum. Einnig gutlaði inn í eyranu ef ég nuddaði að utanverðu. Stundum hvarf hellan við að nudda eyrað eða hreinsa með eyrnapinna en ekki lengur. Ég er á sjó , get fengið eyrna dropa sem eru ætlaðir fyrir sýkingu í eyra. Hvað á ég að gera? Það eru líka til sýkla lyf.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það væri allt í lagi fyrir þig að prófa að nota eyrna dropana. Best væri ef þú gætir fengið símatíma hjá lækni, ef ekki þá er netspjall á heilsuvera.is þar sem hægt er að tala beint við fagaðila. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á heimilislækninn sinn í gegnum mínar síður hjá heilsuveru. Ef það gengur ekki þá er jafnvel hægt að senda tölvupóst á heimilislækninn sinn eða á heilsugæslustöðina sem getur komið því áfram til læknis. Ég myndi ekki ráðleggja þér að taka inn sýklalyf án samráðs við lækni. Það væri síðan gott að láta kíkja á þig um leið og þú kemur í land. Ef þér er mjög illt í eyranu og þér finnst þetta vera að versna þá er fátt í stöðunni nema að koma í land.

Gangi þér vel,

Særún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur