Helstu ástæður milliblæðinga

Ég er búin að vera á diane mite í 11 mánuði. Núna 2 dögum áður en ég á að fara í pillu pásu þá fæ ég pínu ljósbleikar milliblæðingar sem áttu sér stað í svona 3 tíma. Þetta hefur ekki gerst fyrir mig áður og var því að pæla hverjar helstu ástæðurnar fyrir þessu eru. Er þetta alveg eðlilegt þegar maður er búin að taka pilluna í næstum ár?

Ég hef aldrei gleymt að taka hana.
Er í sambandi.
22 ára.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Á fylgiseðli með Diane mite kemur fram að milliblæðingar séu ein af sjaldgæfum aukaverkunum lyfsins. Milliblæðingar geta því átt sér stað þrátt fyrir að þú hafir ekki gleymt að taka pilluna og sért búin að vera á henni í tæpt ár, en mikilvægt er að taka hana alltaf á sama tíma dags.

Aðrar ástæður fyrir milliblæðingum geta verið ólétta, sár í leggöngum eftir samfarir eða leghálskrabbamein, en það er afar sjaldgæft hjá ungum konum. Ef milliblæðingarnar halda áfram er ráðlegt hafa samband við lækninn þinn og fá skoðun og mat á því hvað orsaki milliblæðingarnar og hvort ástæða sé að skipta um lyf.

 

Gangi þér vel

með kveðju,

Sigrún Inga Gunnarsdóttir

Hjúkrunarfræðingur