Spurning:
Sæl verið þið og takk fyrir frábæran vef.
Ég er ein af fjölmörgum sem berjast við aukakílóin eftir meðgöngu. Ég var rúmliggjandi á meðgöngu og bætti mikið á mig. Sonur minn er nú að verða 1 og 1/2 árs og er enn á brjósti. Hann vaknar oft á nóttunni og hefur gert alla tíð, þetta verður til þess að ég er sífellt þreytt.
Ég er í skóla og á 9 ára gamlan strák sem þarfnast mömmu sinnar líka. Ég er því alltaf að sækja í skyndiorku, súkkulaði og aðra óhollustu, ekki hefur þetta nú sérlega jákvæð áhrif á þyngdina. Ég er nú orðin afar þunglynd og vil helst ekki fara út á meðal fólks vegna aukakílóanna. Ég var alltaf mjög grönn og get alls ekki sætt mig við núverandi ástand. Ég hef reynt ýmislegt og tókst meira að segja að létta mig um 10 kg áður en ég hóf nám að nýju. Það er skemmst frá því að segja að þau eru komin aftur og vel það.
Ég hef ekki tímann eða orkuna sem þarf til líkamsræktar í augnablikinu en þarf samt að grípa til einhverra ráðstafana strax! Ég hef reynt að halda bara í við mig og eins að reyna að hætta við alla óhollustu og kvöldbita en þetta hentar mér ekki núna þegar þreytan virðist vera allsráðandi í lífi mínu. Áður fyrr notaði ég stundum Herbalife til að ná af mér 1 – 2 kg þegar mér fannst þörf á og það hentaði mér mjög vel.
Ég er því að velta því fyrir mér hvort það er í lagi að taka Herbalife á meðan ég er enn með soninn á brjósti. Herbalife umboðsmenn segja mér að það sé í fínu lagi en ég treysti ekki alveg hlutleysi þeirra. Ég veit að sjálfsagt langar ykkur að segja mér að líkamsrækt og hollt mataræði sé besta leiðin o að alltaf sé hægt að finna tíma og það auki orku að stunda heilbrigða lífshætti. Staðreyndin er sú að það tekur alltaf mánuð að ná upp aukinni orku og ef ég fyndi auka tíma þá myndi ég sennilega nota hann til þess að fara í bíó með eldri syninum eða bara leggja mig, svo það er tómt mál að tala um. Ég mun hins vegar um leið og skóla lýkur hefjast handa við að venja soninn af brjósti og demba mér í líkamsrækt og hlakka mikið til, en þangað til þarf ég eitthvað til að hjálpa mér.
Kærar þakkir fyrir hjálpina.
Svar:
Komdu sæl.
Ég vil byrja á því að hvetja þig til venja barnið af brjósti sem fyrst þar sem það er orðið eins og hálfs árs, enda líklegt að þú náir þá að hvílast betur. Eflaust hefur þú leitað þér aðstoðar vegna þunglyndisins en ef ekki þá vil ég ráðleggja þér að gera svo strax. Ég veit að oft er það þrautin þyngri að venja sig á heilbrigðan lífsmáta eins og hófsemi í mataræði ekki síst ef eitthvað bjátar á í tilfinningarlífinu. Og hefst þá oft leitin að „einfaldri” hjálp og því miður eru margir „svartir sauðir” þá tilbúnir að gefa ráð sem í reynd leysir engan vanda til lengri tíma enda markmið ráðleggingana fyrst og fremst falin í því að hafa fólk að féþúfu. Hvað varðar Herbalife þá hef ég gagnrýnt markaðssetningu og sumar afurðir þeirra um árabil og ég vil hvetja þig til að lesa þá gagnrýni. Sjá fyrirspurnir á Doktor.is:
Hvað með Herbalife? mælir þú með því?
Hvað með Herbalife-gull? Er hann skaðlaus?
Að þessu sögðu vil ég þó geta þess að mörgum finnst þægilegt að neyta stundum næringardufts í staðinn fyrir hefðbundinn mat og að sjálfsögðu er ekkert hættulegt við það enda um næringarduft að ræða sem einfaldlega inniheldur kolvetni, prótein og fitu ásamt vítamínum og steinefnum. Skiptir þá ekki máli hvort duftið heitir Herbalife, Build-up, Nupo-létt, Myoplex, Létta, Slimma, og svo framvegis. Þó þú hafir barn á brjósti er í góðu lagi að neyta slíks dufts en aftur á móti skal varast töflur, pillur, þvaglosandi og örvandi te. En slíkar vörur eru oft auglýstar sem bráðholl fæðubótarefni ekki síst fyrir þá sem vilja léttast!
Með ósk um gott gengi.
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur