Hjartatif

Hvað er hjartatif

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Hef ekki heyrt talað um hjartatif en gáttatif(atrial fibrillation) er til og er það rafleiðnitruflun í leiðslukerfi hjartans. Nafnið á sjúkdómnum lýsir einkennum hans. Í stað þess að efri hólf hjartans (gáttir) dragist saman og slái með samstilltum, taktföstum hætti, verða samdrættir gáttanna ósamstilltir kippir.  Þetta veldur minnkaðri dælingu blóðs frá hjartanu. Sjúkdómurinn byrjar oftast með köstum sem vara mislengi en getur með árunum þróast yfir í að gáttirnar tifa stöðugt. Slíku ástandi er erfitt að bregðast við. Markmið meðferðar við gáttatifi er að stjórna takti og/eða hjartsláttarhraða og að draga úr hættu á fylgikvillum. Við val á meðferð er tekið tillit til þess hve lengi gáttatifið hefur staðið yfir, hvort það er viðvarandi eða í köstum, áhrif þess á daglegt líf einstaklingsins og hversu alvarleg einkennin eru. Lyf eru notuð til að hafa áhrif á hraða og takt hjartsláttar og stundum er lyfjagjöf nóg til að . Í sumum tilvikum þarf að gera rafvendingu en þá er rafstuði beitt til að koma hjartanu aftur í sínus takt. Í vissum tilfellum er einnig hægt að reyna aðgerð til að brenna fyrir óregluleg rafboð gáttatifs, svokallaða lungnavenubrennslu. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um rafvendingu og lungnavenubrennslu í samnefndum bæklingum frá Landspítala. Læt fylgja með slóðir á fræðslu um gáttatif.

https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Sjuklingar-og-adstandendur/Sjuklingafraedsla—Upplysingarit/Lyflaekningasvid/Hjartasjukdomar/gattatif_2018

https://hjartalif.is/frodleiksmoli-gattatif/

Gangi þér vel

 Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur