Fyrirspurn:
Hversu mikinn hjartslátt er eðlilegt að heyra / finna fyrir? Finn oft mikinn hjartslátt áður en ég fer að sofa og á rólegum stundum. Finn yfirleitt ekkert fyrir þessu á morgnanna, nema þegar ég hef drukkið áfengi kvöldið áður.
Finn ekki til sársauka eða neitt slíkt, en er óviss með þetta og finnst þetta þess vegna óþægilegt, sérstaklega þar sem kransæðasjúkdómar eru í nánustu ætt og því var mér sagt að fylgjast vel með ástandinu á mér.
Er annars í fínu formi, reyklaus, drekk ekki mikið og hef alltaf verið hraustur. Fór til læknis í vetur þar sem ég var skoðaður og tekið af mér línurit og ekkert var að, en ég kom reyndar ekki þessari spurningu að þá
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina
Yfirleitt er ekki þörf á að hafa áhyggjur þótt maður heyri eða finni vel fyrir hjartslætti, það er fyrst og fremst hraði hjartsláttar og hversu reglulegur eða óreglulegur hann er sem menn vilja vita með tilliti til sjúkdóma og þess háttar.
Það er yfrirleitt alveg eðlilegt að finnast maður heyra/finna hjartslátt greinilegar í hvíld eða veikindum, við vökvaskort (eins og í þynnku) eða við mikla áreynslu/rembing.
Ef þú ert búinn að fara í skoðun og hjartalínurit var eðlilegt þá ætti þetta ekki að vera neitt til að hafa áhyggjur af en annars mæli ég með því að fara reglulega í hjartatékk t.d. hjá Hjartavernd, ekki síst ef um fjölskyldusögu er að ræða.
Með bestu kveðju
Guðrún Gyða