hjartsláttur

Hvað þýðir hjartsláttur upp á 101?

Hjartað er vöðvi sem sér um að dæla blóði um líkamann. Hjartað hvílist og fyllist blóði og dregst svo saman og dælir þá blóðinu út í stórar slagæðar.

Hjartsláttartíðnin er hversu oft hjartað fyllist og tæmist á einni mínútu. Hún getur farið eftir líkamlegu ástandi þínu, aldri og virkni.

Þegar talað er um hvíldarpúls er átt við hversu hratt hjartað slær þegar við erum vel úthvíld og róleg. Best er að mæla hvíldarpúlsinn þegar við erum nývöknuð og ekki farin á fætur. Meðalhvíldarpúls manna er um 60-80 slög á mínútu. Hann hækkar svolítið með aldri og getur verið lægri í íþróttamönnum. Púlsinn er hægari þegar við sofum en þegar við erum vakandi í hvíld.

Ég myndi ráðlegga þér að mæla þinn hvíldarpúls við bestu aðstæður og athugaðu að stress og streita geta líka stuðlað að hröðun á hjartslætti.  Ef hvíldarpúlsinn þinn er alltaf um eða yfir 100 slög á mínútu væri gott fyrir þig að ræða það við þinn heimilislækni sem gæti þá skoðað þig og farið yfir hvort ástæða sé til að skoða þetta eitthvað betur.

Gangi þér vel

Sigríður Ólafsdóttir

hjúkrunarfræðingur