Hliðarsjónin er enginn á öðru auganu hvað er til ráða?

Spurning:
Ég er með slakari sjón á hægra auga. Sem lýsir sér í því að ég sé ekki út frá mér til hliðanna þegar ég er að horfa beint fram. Hliðar sjónin er enginn á öðru auganu. Þetta vandamál er búið að vera svona frá fæðingu. Ég hef ekkert gert í þessu fyrr en núna. Þannig að það má í raun segja að vinstra augað sé aðalega í notkun hjá mér. Mér finnst mjög erfitt að hafa ekki fulla sjón á báðum augum. Sérstaklega við akstur. Ég veit um mikið af fólki út í bæ sem á við sömu vandamál að etja og ég og þætti mér því tilvalið að fá svör við þessarri spurningu.

Svar:
Það er erfitt að segja til um hvað veldur þessu hjá þér. Það er margt sem getur komið upp fyrir, í og eftir fæðingu sem hefur áhrif á sjón. Má þar nefna augnsjúkdóma ýmiskonar s.s. gláku, augnsýkingar og erfðasjúkdóma. Algengast er þó að sjónlag augnanna sé með mismunandi hætti og/eða augun vinna ekki saman af einhverjum orsökum. Þetta getur valdið því sem að í daglegu tali er kallað "letiauga". Orsakarinnar fyrir þessu má leita til heilans. Sjái heilinn mismunandi myndir frá augunum í barnæsku, velur hann þá mynd sem er skýrari – og gleymir hinni. Því þroskast ekki samband á milli heilans og "óskýrara" augans. Ef þetta er ekki leiðrétt fyrir sex ára aldur verður augað "latt", þ.e. það mun aldrei hafa jafngóða sjón og hitt augað. Yfirleitt á þetta fólk þó ekki í vandræðum með athafnir daglegs lífs, s.s. að keyra. Það væri athugandi fyrir þig að leita augnlæknis til að greina frekar hvað kynni að hafa valdið þessu hjá þér.