Hlutfall sam- eða tvíkynhneigðra?

Spurning:
Sæl Jóna, hefur verið gerð einhver ítarleg rannsókn á því hversu hátt hlutfall karla og kvenna eru samkynhneigð og/eða tvíkynhneigð?
Spurull.

 

Svar:
Árið 1992 var í fyrsta skipti hér á landi kannað hlutföll þeirra sem sýna gagnkynhneigða, samkynhneigða og tvíkynhneigða hegðun. Þetta var gert í rannsókn sem gerð var á landsvísu til að afla upplýsinga um kynhegðun í tengslum við útbreiðslu kynsjúkdóma, þ.á.m. HIV-smits. Þá kom í ljós að 2,7% þeirra sem svöruðu í landskönnuninni höfðu samrekkt einstaklingi af sama kyni. Svarendur í könnuninni voru ekki spurðir hvað þeir teldu vera sína kynhneigð heldur var spurt um fjölda rekkjunauta yfir ævina og jafnframt beðið um að tilgreina fjölda karla og kvenna sem viðkomandi hafði samrekkt. Þessi aðferð er talin gefa ívið betri mynd af raunverulegum fjölda þess fólks sem sýnir sam-og tvíkynhneigða hegðun en að spyrja fólk beint um sína kynhneigð. T.d. hefur það sýnt sig að sumir karlmenn sem sofa af og til hjá öðrum körlum skilgreina sig frekar sem gagnkynhneigða en sam-eða tvíkynhneigða ef þeir eru spurðir með beinum hætti. Áðurnefndar tölur, 2,7% sem hafa samrekkt sama kyni, verða þó að teljast lágmarkstölur á meðan fordómar gagnvart sam-og tvíkynhneigð eru enn við lýði. Þessar upplýsingar eru úr heilbrigðisskýrslum, fylgirit 1998 nr. 5 og er ég höfundur ásamt Sigríði Haraldsdóttur ef þú hefur áhuga á að kynna þér nánar niðurstöðurnar.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi